Erlent

Baulað á Blair

Fjölmargir verkalýðsforkólfar gengu út af ársfundi sambands verkalýðsfélaga í Bretlandi í dag. Þetta gerðist um leið og Tony Blair tók þar til máls í síðasta sinn sem leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra landsins.

Blair fékk bæði blíðar og óblíðar móttökur þegar hann sté í pontu og mátti þola framíköll frá fundargestum þegar hann tók til máls. Einhverjir gestir ruku á dyr en aðrir stóðu sem fastast í salnum og veifuðu borðum og flöggum þar sem þess var krafist að Blair viki og það strax.

Blair sagði þeim sem mótmæltu vissulega heimilt að gera það en vildi benda á að þar með væru þeir að spila upp í hendurnar á andstæðingum Verkamannaflokksins.

Fundargestir eru margir hverjir æfir forsætisráðherranum fyrir breytingar sem hann hefur gert á opinbera kerfinu í átt til einkavæðingar. Einnig hefur utanríkisstefna hans, ekki síst stríðið í Írak, skilið eftir sig sár.

Blair sagði hægt að óskað þess að hermenn yrðu kallaðir heim en þeir væru í Írak og Afganistan til að verja fólk þar fyrir Talíbönum og al-Kaída liðum.

Það var í síðustu viku sem Blair tilkynnti að ræðan í dag og á flokksþingi Verkamannaflokksins síðar í þessum mánuði yrðu hans síðustu sem leiðtogi flokksins og forsætisráðherra.

Margir flokksmenn telja hann þurfa að víkja hið fyrsta og kom það klárlega í ljós í dag.

Verkalýðsfélögin bresku hafa töluverð áhrif á val á nýju leiðtoga Verkamannaflokksins og vilja því fá að velja margir félagar þeirra velja hið fyrsta. Vekalýðsfélögin ráða yfir 33% atkvæða þegar kemur að leiðtogavali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×