Erlent

Skotárás í Montreal í rannsókn

Ein kona týndi lífi og minnst nítján særðust þegar ungur maður hóf skothríð á samnemendur sína í menntaskóla í Montreal í Kanada síðdegis í gær. Lögregla felldi árásarmanninn.

Ungur maður, klæddur svörtum rykfrakka og með hanakamb hóf skothríð fyrir utan Dawson-menntaskólann í Montreal í Kanada síðdegis í gær. Hann gekk síðan inn í skólann og hélt skothríðinni áfram. Námsmenn hlupu felmtri slegnir út úr skólanum þegar ljóst var að maðurinn hafði það eitt í huga að særa og myrða sem flesta.

Nokkrir nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn voru í matsalnum þegar árásarmaðurinn gekk þar inn og köstuðu allir sér í gólfið um leið og hann hóf skothríð. Að sögn vitna skýldi maðurinn sér á bak við sjálfsala á meðan hann hlóð byssu sína og svo hélt hann áfram að hleypa af henni. Fjöldi nemenda var þá í skólastofum skólans og kennarar hlupu um gangana og sögðu nemendum að forða sér hið snarasta.

Lögreglumenn voru nærri vettvangi þegar ósköpin dundu yfir en voru að sinna öðru útkalli. Þeir óskuðu þegar eftir liðsauka og þustu á vettvang.

Lögreglumenn skýldu sér bak við vegg við skólan og skiptust á skotum við manninn sem var þá staddur inni í matsalnum á annarri hæð. Lögregla fór varlega að manninum þar sem fjölmargir nemendur voru nálægt honum. Svo fór að lögregla skaut manninn til bana.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu bar hann á sér þrjú vopn en ekki er vitað hverrar gerðar. Ein byssan mun þó líkast til hafa verið sjálfvirk sökum þess hve árásarmaðurinn hleypti af mörgum skotum.

Ein ung stúlka féll fyrir byssukúlu árásarmannsins og tuttugu særðust, þar af sex lífshættulega.

Atburðir gærdagsins vekja sárar minningar fyrir marga íbúa í Montreal. Verstu fjöldamorð kanadískrar sögu voru framin þar fyrir tæpum 17 árum en í desember 1989 réðst byssumaðurinn Marc Lepine inn í stúlknaskóla þar í borg og skaut fjórtán nemendur til bana áður en hann svipti sig lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×