Erlent

Íbúar í Montreal slegnir

Ein kona týndi lífi og 19 særðust, þar af sex lífshættulega, þegar hálf þrítugur maður hóf skothríð á nemendur í menntaskóla í Montreal í Kanada síðdegis í gær. Lögregla felldi árásarmanninn.

Það var síðdegis í gær sem hinn 25 ára gamli Kimveer Gil hóf skothríð fyrir utan Dawson-menntaskólann í Montreal í Kanada. Hann gekk síðan inn í skólann og hélt áfram að skjóta á þá sem þar urðu á vegi hans.

Námsmenn hlupu felmtri slegnir út úr skólanum þegar ljóst var að Gil hafði það eitt í huga að særa og myrða sem flesta.

Lögreglumenn voru nærri vettvangi þegar ósköpin dundu yfir en voru að sinna öðru útkalli. Þeir óskuðu þegar eftir liðsauka og þustu á vettvang.

Lögreglumenn skýldu sér bak við vegg við skólann og skiptust á skotum við manninn sem var þá staddur inni í matsalnum á annarri hæð.

Lögregla fór varlega að manninum þar sem fjöldi nemenda var nálægt honum. Svo fór að lögregla skaut manninn til bana.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu bar hann á sér þrjú vopn en ekki er vitað hverrar gerðar. Ein byssan mun þó líkast til hafa verið sjálfvirk sökum þess hve árásarmaðurinn hleypti af mörgum skotum.

Ein ung stúlka féll fyrir byssukúlu árásarmannsins og tuttugu særðust, þar af sex lífshættulega.

Gil hélt út vefsíðu sem var helguð svokallaðri goth-menningu og -tísku. Þar voru birtar myndir af honum gráum fyrir járnum. Á síðunni kallaði Gil sig "Engil dauðans".

Atburðir gærdagsins vekja slæmar minningar hjá mörgum íbúum í Montreal. Þar voru framin verstu fjöldamorð í sögu Kanada fyrir tæpum sautján árum. Þá skaut byssumaðurinn Marc Lepine 14 nemendur í stúlknaskóla til bana í desember 1989 áður en hann svipti sig lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×