Erlent

Dauðadómur yfir Asahara staðfestur

MYND/AP

Hæstiréttur í Japan hefur staðfest dauðadóm yfir Shoko Asahara, leiðtoga sértrúarsöfnuðar þar í landi. Asahara var fyrir tveimur árum sakfelldur fyrir að hafa skipulagt taugagassárás á neðanjarðarlestakerfið í Tókýó fyrir ellefu árum og aðra árás ári áður. Nítján týndu lífi í árásunum.

Lögfræðingar Asahara hafa áfrýjað dómunum síðan hann var kveðinn upp árið 2004. Þetta var síðasta áfrýjun sem möguleg var og því ljóst að dómnum verður fullnægt.

Það var árið 1995 sem félagar í sértrúarsöfnuði hans réðust með sarín taugagas á lestarkerfi Tokyoborgar á mesta annatíma þegar fólk var á leið til vinnu. Tólf týndu lífi í árásinni og hátt í sex þúsund manns særðust.

Lögfræðingar töldu rétt að milda dóminn þar sem Asahara væri andlega vanheill. Asahara var dæmdur til dauða í febrúar 2004 en þá lauk réttarhöldunum yfir honum sem höfðu staðið í átta ár. Asahara var einnig sakfelldur fyrir gas-árás í japönsku borginni matsumoto árið 1994. Sjö týndu lífi þá. Meðan á réttarhöldunum stóð muldraði Asahara óstjórnlega og lét afar ófriðlega.

Tólf félagar í söfnuði Asahara hafa verið dæmdir til dauða vegna árásanna en enginn þeirra hefur verið tekinn af lífi. Fyrir árásirnar voru mörg þúsund félagar í Aum Shinrikyo, söfnuði Asahara, margir þeirra vel menntaðir og auðugir. Þetta fólk aðhylltist ofbeldisfullar heimsendaspár leiðtogans.

Nafni söfnuðarins var breytt í Aleph árið 2000 og hafa félagsmenn afneitað ofbeldi. Þrátt fyrir það hefur japanska lögreglan náið eftirlit með safnaðarmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×