Erlent

Týndi lífi í BASE-stökki

Yfirvöld í Mexíkó hafa fundið lík þekkst ástralsks ævintýramanns sem týndi lífi í svokölluðu BASE-stökki í suðurhluta landsins fyrr í vikunni. Keppni var þar haldin í þessari glæfralegu íþrótt og verður nú rannsakað hvað fór úrskeiðis.

Adam Gibson var 29 ára og frá Sidney í Ástralíu. Han mun hafa verið vanur svokölluðu BASE stökki og nokkuð þekktur fyrir þátttöku í þessari glæfralegu íþrótt.

BASE stökk er þegar fallhlíf er notuð án þess að fallhlífastökkvari kasti sér út úr flugvél eins og venja er. Stokkið er af háum brúm, skýjakljúfum eða fjallshlíð.

Gibson var að taka þátt í BASE-stökks keppni í Sumidero-gili í Chiapas-héraði í Mexíkó á miðvikudaginn. Hér má sjá þar sem hann og ung kona stökkva ofan í gilið þar sem áttahundruð metrar eru til jarðar. Gibson féll til jarðar án þess að fallhlíf hans opnaðist.

Skipuleggjendur keppninnar segja upptökur verða grandskoðaðar og reynt að finna út hvað olli slysinu.

Yfirvöld segja að vindasamt hafi verið á svæðinu og það komið í veg fyrir að fallhlífin opnaðist. Gibson hafi síðan skollið á klettavegg og líklegast látist samstundis.

Lík Gibsons fannst svo þegar tæpir tveir sólahringar voru liðnir frá slysinu en erfiðlega gekk að komast að því og ná upp úr gilinu.

Yfirvöld í Chiapas-héraði höfðu veitt leyfi fyrir keppninni og flykktust keppendur þangað frá Ástralíu, Bandaríkjunum og Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×