Erlent

Hvetur til þess að páfi verði myrtur

Harðlínuklerkur múslima í Sómalíu hvetur trúbræður sína til að elta Benedikt XVI. páfa uppi og myrða hann. Páfi sendi í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem hann segist harma það að ummæli sín um Múhameð spámann hafi verið tekin sem móðgun við múslima. Flestir múslimar segja afsökunarbeiðnina ekki duga.

Abubukar Hassan Malin er áhrifamikill harðlínuklerkur í Sómalíu. Hann gengur svo langt að hvetja trúbræður sína til að elta páfa uppi og myrða hann fyrir það sem hann kallar gróf ummæli páfa í ræðu hans í Regensburg í Þýskalandi fyrr í vikunni. Þar vitnaði hann til 14. aldar keisara Austrómverska ríkisins sem sagði Múhameð spámann hafa fært heiminum illsku og miskunnarleysi. Malin segir ummælin jafn slæm og bókina Söngva Satans eftir Salman Rushdi.

Andlegir og veraldlegir leiðtogar múslima víða um heim, sem og almennir múslimar, hafa fordæmt ummælin og sagt þau móðgun við múslima.

Talsmaður páfagarðs sagði í gær að það hefði alls ekki verið ætlun páfa að móðga nokkrun. Hann hafi viljað efla samkennd meðal trúarhópa.

Gerð hefur verið krafa um að páfi biðjist afsökunar tafarlaust. Heimildarmenn Reuters fréttastofunar í Páfagarði segjast óttast um öryggi páfa, sér í lagi eftir að eldsprengjum var kasta á þrjár kirkjur á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu.

Það var svo í morgun sem páfi sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að sér þyki miður að ræða sín hafi verið túlkuð sem móðgun við múslima. Hann virði alla þá sem aðhyllist múhameðstrú og voni að múslimar skilji innihald ræðu sinnar.

Talsmaður bræðralagas múslima í Egyptalandi segir afsökunarbeiðnina ekki duga.. Hann þurfi að biðjast afsökunar með persónulegri hætti.

Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, segir ræðu páfa hafa verið ljóta og honum beri að draga ummæli sín til baka. Hann hafi talað eins og stjórnmálamaður en ekki trúarleiðtogi. Benedikt páfi XVI. er væntanlegur í heimsókn til Tyrklands í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×