Lögreglan í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum hefur handtekið mann sem grunaður er um að hafa rænt fjórtán ára stúlku, haldið henni nauðugri og nauðgað.
Lögreglan handtók Vinson Filyaw, þrjátíu og sex ára karlmann, á sunnudaginn, sólarhring eftir að stúlkunni var bjargað. Filyaw rændi stúlkunni 6. september síðastliðinn þegar hún var á leið heim úr skólanum.
Henni hafði þá verið haldið í neðanjarðarbyrgi í tíu daga. Stúlkunni tókst að komast í síma ræningjans þegar hann svaf og senda sms skilaboð til móður sinnar. Lögreglan gat út frá sendum miðað út á hvaða svæði stúlkan var stödd. Þeir hófu svo mikla leit á svæðinu á föstudaginn.
Maðurinn hefur áður komist í kast við lögin vegna kynferðisglæpa. Málið minnir nokkuð á mál Natöscu Kampusch, átján ára stúlku, sem fannst í útjaðri Vínaborgar eftir að hún hafði sloppið frá mannræningja sínum sem hafði haldið henni í föngum átta ár.