Erlent

Google bannað að birta fréttir úr belgískum blöðum

Héraðsdómur í Belgíu hefur gert leitarvefnum Google að hætta að birta fréttir úr belgískum blöðum án leyfis og án þess að borga fyrir það. Samtök blaðaútgefenda í frönsku- og þýskumælandi hluta Belgíu fóru í mál við Google vegna þessa, en samtökin eiga rétt á öllu því sem birtist í blöðum þar.

Verði Google ekki við þessu verður fyrirtækið sektað um jafnvirði tæplega 90 milljóna íslenskra króna á dag. Talsmaður útgefendasamtakanna segir að það verði svo hverju blaði í sjálfsvald sett að ákveða hvað það vill rukka Google fyrir að birta efni sitt. Google er síðan gert að birta niðurstöðu dómstólsins á vefsíðu sinni næstu fimm daga.

Talsmaður Google segir að ekki hefði þurft að fara með málið fyrir dóm, einfaldast hefði verið að biðja Google um að fjarlægja efnið af síðunni og það hefði verið gert möglunarlaust.

Stjórnendur Google telja sig veita fjölmiðlum víða um heim, sem og almenningi, þjónustu með að birta fréttaefni víða að á síðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×