Erlent

Reinfeldt fær stjórnarmyndunarumboð

Fredrik Reinfeldt, formaður Hægriflokksins (tv), á fundi með Birni von Sydow, þingforseta, í Stokkhólmi í dag.
Fredrik Reinfeldt, formaður Hægriflokksins (tv), á fundi með Birni von Sydow, þingforseta, í Stokkhólmi í dag. MYND/AP

Fredrik Reinfeldt, sigurvegara sænsku þingkosninganna, hefur verið falið að mynda ríkisstjórn fjögurra hægri flokka í Svíþjóð. Hann fór á fund Björns von Sydow, þingforseta, í dag.

Þetta verður fyrsta meirihlutastjórn í Svíþjóð í rúma tvo áratugi. Reinfeld segir sig og þingforsetann koma að þessari vinnu. Hann sagði verkið að öllum líkindum ekki tafsamt og fremur einfalt. Hægriflokkarnir hefðu fengið óskorað umboð til að mynda stjórn.

Maud Olofsson, leiðtogi Miðflokksins - eins fjögurra flokka Hægrabandalagsins, segir mikilvægt að tryggja það að kynjahlutföllin í ríkisstjórninni verði jöfn. Konur verði að sitja í helmingi ráðuneyta. Aðspurð um viðhorf Reinfeldts til þessa sagði Maud að þau hefðu ekki rætt þetta mál en hún vonaði að hann áttaði sig á nauðsyn þess að skipa málum með þessum hætti. Ríkisstjórnin komi fram fyrir hönd allra Svía og tali máli þeirra og eins og allir viti sé helmingur Svía konur.

Reinfeldt segir hægt að endurspegla samsetningu sænsks þjóðfélags með ýmsum hætti, líta þurfi til reynslu og þeirra sem hæfastir séu. Göran Hägglund, leiðtogi Kristilegra demókrata, segir mikilvægt að skipað verði í stjórn með jöfnum hætti að stefnt sé að jafnrétti en það þurfi að útfæra síðar í stjórnarmyndunarferlinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×