Erlent

Thaksin kominn til Lundúna

Takshin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, á leið frá Gatwick-flugvelli í Lundúnum síðdegis í dag.
Takshin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, á leið frá Gatwick-flugvelli í Lundúnum síðdegis í dag. MYND/AP

Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, kom til Lundúna síðdegis í dag. Thaksin var steypt af stóli í blóðlausri byltingu í gær. Á þeim tíma sat forsætisráðherrann fyrrverandi 61. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York.

Flugvél Thaksins lenti á Gatwick flugvelli á fimmta tímanum í dag. Talsmaður breskra stjórnvalda sagði hann í einkaheimsókn og því væru engir fundir fyrirhugaðir milli hans og Tony Blairs, forsætisráðherra Bretlands.

Ekki er vitað hvar Thaksin mun halda til en dóttir hans, Pinthongta, stundar nám í Lundúnum og mun faðir hennar eiga fasteignir þar í borg. Óvíst er hvenær eða hvort hann mun snúa aftur til heimalands síns.

Konungur Taílands lýsti því yfir í dag að hann styddi byltingarmenn sem segjast ætla að skipa nýjan forsætiráðherra eftir hálfan mánuð og boða kosningar í fyrsta lagi að ári liðnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×