Erlent

Sátt næst um hryðjuverkafrumvarp Bush

MYND/AP

Náðst hefur samkomulag um umdeilt hryðjuverkafrumvarp Bush Bandaríkjaforseta. Frumvarpið lýtur meðal annars að því hversu langt bandaríska leyniþjónustan má ganga í yfirheyrslum á hryðjuverkamönnum.

Þetta þýðir að hryðjuverkafrumvarp Bush getur nú farið til lokaumræðu á þingi og Rebúblikanaflokkurinn getur beint sjónum fjölmiðla að öðru en innanflokksdeilum nú þegar styttist óðum í þingkosningar í landinu, en þær verða haldnar í nóvember.

Öldungardeildarþingmaðurinn John McCain var einn þriggja þingmanna flokksins sem sögðu Bush að hann gæti ekki komið hryðjuverkafrumvarpi sínu óbreyttu í gengum þingið. Það væri ljóst að Bandaríkjamenn myndu virða Genfarsáttmálann um meðferð á stríðsföngum og því skýlaus krafa þeirra þriggja að pyntingar á meintum hryðjuverkamönnum yrðu ekki leyfðar.

Samkomulagið felur meðal annars í sér að Bush féll frá þeirri kröfu sinni að ekki sé hægt að sækja til saka þá fulltrúa bandarísku leyniþjónustunnar sem sinna yfirheyrslum.

Samkomulagið felur það einnig í sér að ríkisstjórn Bush getur hafið á ný herréttarhöld yfir meintum hryðjuverkamönnum í Guantanamo-fangelsinu en þeim var frestað í júní síðastliðnum. Lögfræðingar þeirra ákærðu fá hins vegar aukinn rétt á að sjá þau sönnunargögn sem eru gegn þeim. Talið er að fjögurhundruð og sextíu fangar séu í haldi í Guantanamo.

Fangabúðir Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu hafa nú verið starfræktar í fjögur og hálft ár. Þar eru vistaðir meintir hryðjuverkamenn. Gagnrýni á stjórnvöld í Bandaríkjnum hefur aukist á síðustu árum vegna búðanna.

Bush fagnaði samkomulaginu mikið og sagði hryðjuverkalögin eitt helsta tækið sem stjórnvöld hefðu til að vernda landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×