Erlent

Allt gengur sinn vanagang í Tælandi

Valdaránið í Taílandi virðist varla hafa haft nokkur áhrif á daglegt líf í landinu. Allar stofnanir eru opnar og skriðdrekarnir á götum Bangkok virðast fremur draga ferðamenn að en hrekja þá frá.

Herforingjastjórnin tók formlega við völdum í dag við mikla athöfn, þremur dögum eftir valdaránið. Konungurinn bað fólk um að vera rólegt og hlýða fyrirmælum stjórnarinnar. Herforinginn Sondhi Boonyaratkalin mun gegna embætti forsætisráðherra í hálfan mánuð, en þá ætlar herforingjaráðið að útnefna almennan borgara í embættið. Fyrrverandi forsætisráðherrann Thaksin, sem nú er staddur í Lundúnum, sagði í fyrstu yfirlýsingu sinni frá því að honum var steypt af stóli, að hann hygðist taka sér hlé frá stjórnmálum - þótt hann hafi nú kannski ekki haft mikið val um það eins og komið er.

Skriðdrekar og hermenn sjást enn á götum Bangkok, en enginn virðist hins vegar líta á þá sem ógn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×