Erlent

Íraksstríðið sagt hafa aukið hættuna á hryðjuverkum

Íraksstríðið hefur aukið hryðjuverkahættuna í heiminum og auðveldað róttækum múslimum að afla stuðnings. Þetta kemur fram í nýrri bandarískri leyniskýrslu sem dagblaðið New York Times vitnar til í morgun.

Fjallað er um áhrif Íraksstríðsins í skýrslunni og að sögn blaðsins koma þar að stjórnendur og sérfræðingar 16 leyniþjónustustofnana í bandaríska stjórnkerfinu. Blaðamenn New York Times hafa skýrsluna sjálfa ekki undir höndum en hafa rætt við marga þeirra sem áttu þátt í að taka hana saman.

Niðurstaða skýrsluhöfunda mun vera sú að Íraksstríðið hafi aukið hættuna á hryðjuverkum og auðveldað herskáum múslimum víða um heim að fjölga í sínu liði. Þetta er þvert á málflutning Hvíta hússins en fulltrúar bandarískra stjórnvalda fullyrða að það hafi verið rétt ákvörðun að ráðast inn í Írak og mikilvægur liður í baráttunni gegn hryðjuverkum. Sérfræðingar hafa sagt að fyrir innrásina hafi Írak ekki verið sérstakur griðarstaður hryðjuverkamanna en það hafi nú breyst.

Stjórnmálaskýrendur segja skýrsluna mikilvæga þar sem að henni komi fulltrúar mikilvægra stofnana í stjórnkerfinu og miðli þar viðhorfum stjórnenda þeirra. Margir skýrsluhöfunda segja að eftir því sem liðið hafi á stríðið gegn hryðjuverkum hafi al-Kaída náð að skjóta rótum víðar en áður og Íraksstríðið hafi hjálpað þar til. Skýrslan er sögð fyrsta heildstæða matið í Bandaríkjunum á alþjóðlegum hryðjuverkum síðan ráðist var inn í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×