Erlent

Bin Laden sagður á lífi

Heimildarmenn bandaríska fréttatímaritsins Time fullyrða að Osama bin Laden, leiðtogi al-Kaída hryðjuverkasamtakanna, sé ekki allur en hann sé hins vegar við dauðans dyr. Fullyrt var í frönsku blaði í gær að hann væri látinn.

Það var franska héraðsblaðið L´Est Republicain sem flutti fréttir af andláti bin Ladens í gær. Þar var vitnað í leyniskýrslu frönsku leyniþjónustunnar þar sem haft var eftir sádí-arabískum heimildum að hann hefði látist úr taugaveiki í Pakistan í síðasta mánuði. Það hefur ekki fengist staðfest og hafa franskir og sádíarabískir leyniþjónustu- og stjórnmálamenn keppst við að neita þessum fréttum í dag.

Í nýútkomnu tölublaði bandaríska fréttatímaritsins Time er haft eftir sádíarabískum heimildarmönnum að bin Laden sé haldinn sjúkdómi sem gæti reynst honum lífshættulegar. Hann sé alvarlega veikur. Á vefsíðu tímaritsins kemur fram að háttsettir leyniþjónustumenn ýmissa ríkja trúi þessum fregnum ekki og telji þetta fremur kenningu sádíarabískra leyniþjónustumanna sem hafi ekki nein gögn í höndunum máli sínu til stuðnings.

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki lagt meiri áherslu á að handsama bin Laden í stjórnartíð sinni. Clinton var gestur í spjallþætti á Fox fréttastöðinni í dag og var spurður hvort hann hefði gert nægilega mikið til að hafa upp á bin Laden. Hann sagði að svo hefði ekki verið því hann hefði ekki náð bin Laden. Hins vegar hefði hann reynt að hafa hendur í hári honum sem væri meira en þeir hægrimenn sem gagnrýndu hann gætu sagt.

Clinton bætti því við að í hans stjórnartíð hefðu áætlanir verið gerðar um að steypa stjórn Talíbana með innrás í Afganistan en af því hafi ekki orðið þar sem bandaríska leyniþjónustan, CIA, og alríkislögreglan, FBI, hafi ekki getað staðfest að bin Laden hefði staðið að baki sprenguárásinni á bandaríska herskipið Cole árið 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×