Erlent

Mótmæltu lokun miðstöðvar fyrir ungt fólk

Vel á þriðja hundrað manns voru handteknir eftir að mótmæli fóru úr böndunum á Norðurbrú í Kaupmannahöfn í gærkvöld. Danska lögreglan hefur krafist gæsluvarðhalds yfir fimm þeirra. Verið var að mótmæla lokun miðstöðvar fyrir ungt fólk í hverfinu.

Mótmælendur komu saman á Sankti Hans torgi síðdegis en umrædd miðstöð fyrir ungt fólk stendur við Jagtvej og hefur verið athvarf vinstri róttæklinga og hústökumanna. Nú stendur til að loka miðstöðinni, því eigandinn, sem er sjóður kristins trúfélags, hyggst nýta húsnæðið undir annað.

Skipuleggjendur mótmælanna létu fjölmiðla vita af þeim fyrir fram en lögregluna ekki. Þó var á endanum samið um ákveðna gönguleið. Um fimmleytið komu göngumenn á Drottningar Lovísu brú og var þá stór hluti þeirra búinn að hylja andlit sín með grímum og klútum og leystust friðsamleg mótmælin upp í óeirðir á skömmum tíma.

Lögreglumenn sem fylgdust með göngunni voru grýttir, mest með ávöxtum, en mótmælendur rifu einnig upp steinlagðar götur og fleygðu steinunum, kveiktu í bekkjum og ruslatunnum og ruddu upp vegatálmum.

Margir hlupu inn í Folkets Park en lögreglan leysti mótmælin upp, elti mótmælendurna og handtók samtals 263. Nokkrir þátttakendur í óeirðunum halda því fram að lögregla hafi ögrað þeim með því að keyra inn í hóp sitjandi mótmælenda en aðrir segja að þeim hafi einfaldlega verið farið að leiðast og því ákveðið að hrista upp í þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×