Erlent

Rúmenía og Búlgaría fá inngöngu í ESB um áramót

MYND/AP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf í dag grænt ljós á það að Búlgaría og Rúmeníua gengju í sambandið í janúar næstkomandi fremur en ári. Löndin þurfa þó líklega að uppfylla ýmiss konar sérákvæði áður en þau verða fullgildir meðlimir.

Meðal þess sem framkvæmdastjórnin leggur til er að nauðsynlegt verði að fylgjast vel með dómskerfinu, styrkjum frá Evrópusambandinu og ekki síst fæðuöryggi. Áfram verður bannað að flytja inn svínakjöt frá báðum löndum en bæði búlgarskir og rúmenskir bændur hafa þurft að kljást við illskæða sjúkdóma í svínum.

Einnig er bent á að löndin þurfi að taka á spillingu innan stjórnkerfisins og skipulögðum glæpasamtökum. Líklegt er að takmarkanir verði settar á flæði vinnuafls frá löndunum tveimur, en margir íbúanna sjá inngönguna sem tækifæri til að komast burt.

Það er í höndum framkvæmdastjórnar ESB að mæla með inngöngu landanna en leiðtogar aðildarríkja sambandsins taka endanlega ákvörðun. Það verður gert í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×