Erlent

Rússar einangra Georgíu

Rússar hafa lokað fyrir allar samgöngur milli Rússlands og Georgíu. Öllu flugi, lestarferðum, og siglingum hefur verið hætt og vegum lokað. Þá hefur rússneskum hersveitum í Georgíu verið skipað í viðbragðsstöðu. Þetta er enn eitt stig í vaxandi spennu milli landanna eftir að fjórir Rússneskir herforingjar voru handteknir í Georgíu í síðustu viku, sakaðir um njósnir.

Georgía virðist vera að reyna að slá á spennuna með því að tilkynna í dag að rússarnir fjórir verði afhentir í vörslu fulltrúa Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu, sem er væntanlegur til Tblisi í dag. Hann mun svo sjá til þess að þeim verði skilað til Rússlands.

Eftir nýjustu aðgerðum Rússa að dæma, er þetta ekki nóg til þess að friða þá. Georgía er fyrrverandi Sovétlýðveldi, smáríki með fimm milljónir íbúa. Auk Rússlands á það landamæri að Tyrklandi og liggur að Svartahafi.

Forseti Georgíu, Mikael Saakaswili, vill að landið taki vestræna stefnu og meðal annars ganga í NATO. Það hugnast Rússum lítt, og sambúðin hefur orðið sífellt stirðari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×