Erlent

Abbas hugar að myndun neyðarstjórnar Palestínumanna

Mahmoud Abbas, forseti heimastjórnar Palestínumanna er alvarlega að hugsa um að mynda neyðarstjórn, eða boða til nýrra kosninga, til þess að binda enda á átökin við Hamas samtökin.

Níu Palestínumenn féllu í gær í átökum milli Hamas liða og Fatah hreyfingar forsetans. Fleiri hafa fallið í dag. Valdabaráttan milli Hamas og Fatah verður sífellt harðari, eins og þetta mannfall sýnir. Varla líður sá dagur að ekki komi til átaka.

Abbas hefur verið að reyna að mynda þjóðstjórn með Hamas, en hann er undir miklum þrýstingi frá vesturlöndum um að mynda enga stjórn með hreyfingunni, fyrr en hún verður við kröfum um að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis. Það hefur leiðtogi Hamas ekki tekið í mál.

Abbas á líka við mikinn efnahagsvanda að stríða, þar sem ekki hefur verið hægt að greiða opinberum starfsmönnum laun, síðan Hamas hreyfinginn vann sigur í þingkosningum í janúar. Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hættu þá fjárstuðningi við Palestínumenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×