Erlent

Hættulegt að vitna gegn Saddam Hussein

Yfir 200 ættingjar Íraka sem hafa vitnað gegn Saddam Hussein, hafa horfið með dularfullum hætti. Aðrir hafa hreinlega verið myrtir á götum úti, eða á heimilum sínum.

Vitni númer eitt gegn Saddam er Ahmed Hassani. Hann er ekki í vafa um að forsetinn fyrrverandi standi á bakvið morðin og mannshvörfin. Hann segir frá því að þegar hann sat sjálfur í vitnastúkunni hafi Saddam horft beint í augu hans og dregið fingur yfir hálsinn. Þetta hafi verið sýnt í beinni útsendingu í sjónvarpinu.

Ahmed Hassani er viss um að þetta  hafi verið skipun til fylgismanna Saddams um að myrða fjölskyldu hans. Tveir frændur hans hafa síðan verið numdir á brott og ekkert heyrst frá þeim. Skotárás var gerð á yngri bróður hans, í heimabæ þeirra, og frændi þeirra drepinn þegar hann reyndi að koma til hjálpar. Bróðirinn hefur nú misst annan fótinn, eftir árás leyniskyttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×