Erlent

Forseti Sambíu endurkjörinn

Stjórnarandstæðingar láta í ljós óánægju sína með úrslit forsetakosninganna í Sambíu.
Stjórnarandstæðingar láta í ljós óánægju sína með úrslit forsetakosninganna í Sambíu. MYND/AP

Levy Mwanawasa hefur verið endurkjörinn forseti Sambíu með 43% atkvæða. Kjörstjórn landsins staðfesti þetta í dag. Michale Sata, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og sem kom næstur forsetanum með 29% atkvæða, segir Mwanawasa hafa stolið sigrinum en hvetur stuðningsmenn sína til að sýna stillingu.

Gengið var til atkvæða í síðustu viku. Sata hefur viðurkennt ósigur sinn en segist ætla að gera forsetanum lífið leitt á öðrum kjörtímabili sínu, bæði á þingi og utan þess.

Sata segir svik hafa verið í tafli. Hann hafi upplýsingar um að allt að 400 þúsund atkvæði hafi ekki verið talin á þeim svæðum þar sem forsetinn hafi átt hve erfiðast uppdráttar.

Alþjóðlegir eftirlitsmenn hafa borið lof á framkvæmd kosninganna. Þeir höfðu þó varla sleppt orðunum þegar ásakanir um svik komu fram og til óeirða kom í nokkrum borgum Sambíu.

Mwanawasa var einni sakaður um svik þegar hann sigraði í forsetakosningunum fyrir fimm árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×