Erlent

Sterling uppvíst að annarri gjaldtöku

Flugfélagið Sterling, sem nýverið varð uppvíst að því að innheimta opinberan flugskatt af hverjum farþega í Svíþjóð án þess að skatturinn væri til, er nú uppvíst af annarri gjaldtöku án þess að viðskiptavinirnir viti af.

Nú er það allt að 600 króna gjald ef viðskiptavinir greiða fargöldin með krítarkortum. Viðskiptavinirnir vita ekki af þessu fyrr en eftir á. Norska blaðið Aftenposten segir að slík gjaldtaka sé ýmist ólögleg á Norðurlöndum eða þá að greina þurfi viðskiptavinum skýrt frá henni, fyrirfram.

Aftenposten hefur það eftir samkeppnisyfirvöldum í Danmörku að gjaldtakan sé klárlega ólögleg þar í landi þar sem megnið af henni renni beint til flugfélagsins en ekki til krítarkortafyrirtækja fyrir þjónustuna. Þá segja norsk samkeppnisyfirvöld að heildarkostnaður af hverjum flugmiða eigi að liggja fyrir viðskiptavininum hverju sinni með öllum gjöldum inniföldum.

En varðandi flugskattinn, sem Sterling hefur innheimt í Svíþjóð, þá ætlaði fyrrverandi ríkisstjórn að leggja hann á í haust en eitt af kosningaloforðum Reinfelts forsætisráðherra fyrir kosningarnar í sumar var einmitt að hætta við þau áform ef hann kæmist til valda og við það stóð hann, nokkuð sem Sterling reiknaði alls ekki með, að því er virðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×