Erlent

Bretar sagðir hafa látið undan kröfum lýðskrumara

Calin Popescu Tariceanu, forsætisráðherra Rúmeníu (th.) á fundi með Ferenc Gyurcsany, forsætisráðherra Ungverjalands, í Búdapest í gær.
Calin Popescu Tariceanu, forsætisráðherra Rúmeníu (th.) á fundi með Ferenc Gyurcsany, forsætisráðherra Ungverjalands, í Búdapest í gær. MYND/AP

Calin Popescu Tariceanu, forsætisráðherra Rúmeníu, segir bresk stjórnvöld hafa látið undan kröfum lýðskrumara með ákvörðun sinni um að takmarka rétt Búlgara og Rúmena til vinnu í Bretlandi. Löndin tvö ganga inn í Evrópusambandið í janúar á næsta ári.

Ófaglærðum frá Búlgaríu og Rúmeníu verður aðeins leyft að vinna við matvælaframleiðslu og í landbúnaði, en öllum faglærðum og sjálfstæðum atvinnurekendum verður heimilt að starfa í Bretlandi. Með þessu vilja bresk stjórnvöld hefta flutning fólks frá Austur-Evrópu en með inngöngu í ESB verða löndin aðilar að sameiginlegum vinnumarkaði sambandsins.

Breskur vinnumarkaður var opnaður fyrir 10 nýjum aðildarríkjum ESB fyrir tveimur árum án takmarkana og bjuggust stjórnvöld við að 15 þúsund manns kæmu til starfa þaðan á ári hverju. Reyndin varð önnur því 600 þúsund hafa komið til Bretlands á þeim tveimur árum sem liðin eru.

Tariceanu segir þetta grafa undan trausti á ESB og gildi sambandsins. Hann sagðist ekki eiga von á því að Rúmenar myndu flykkjast til Bretland þar sem hagkerfið í heimalandinu væri að stækka hratt og þegar væri skortur á vinnuafli í Rúmeníu.

Írar ætla einnig að takmarka straum vinnuafls frá Búlgaríu og Rúmeníu við inngöngu þessara landa í sambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×