Körfubolti

Tamara Bowie best í fyrstu umferðinni

Tamara Bowie skilaði feitri tölfræði í fyrsta leik sínum með Grindavík í deildinni
Tamara Bowie skilaði feitri tölfræði í fyrsta leik sínum með Grindavík í deildinni mynd/daníel

Bandaríska körfuknattleikskonan Tamara Bowie hjá Grindavík var leikmaður fyrstu umferðar í Iceland Express deild kvenna samkvæmt tölfræðigrunni KKÍ en hún átti stórleik gegn liði Hamars/Selfoss. Þetta kemur fram á vef körfuknattleikssambandsins í dag.

Bowie skoraði 35 stig, hirti 20 fráköst, gaf 4 stoðsendingar, varði 4 skot og stal 3 boltum í 86-74 sigri Grindavíkur og hlaut fyrir þessa frammistöðu 42 stig samkvæmt formúlu sem mælir frammistöðu leikmanna. Þar eru allir tölfræðiþættir teknir til greina og hefði Bowie verið með mun fleiri stig ef hún hefði ekki farið jafn illa með langskotin og raun bar vitni - því hún hitti aðeins einu af tíu þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Áður hafði Jermaine Williams hjá Keflavík hlotið nafnbótina leikmaður fyrstu umferðar hjá körlunum, en hann fékk 33 stig fyrir frammistöðu sína á leikvarpinu á vef KKÍ þar sem skoða má frammistöðu hvers einasta leikmanns út frá þessari skemmtilegu formúlu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×