Erlent

Fangelsið ekki nógu fínt fyrir svikahrapp

Peter Foster á Fiji eyjum
Peter Foster á Fiji eyjum MYND/AP

Ástralski svikahrappurinn Peter Foster, sem meðal annars sá um íbúðakaup fyrir forsætisráðherrafrú Bretlands, fékk í dag að flytja sig á lúxushótel á Fiji eyjum, vegna þess að fangelsið þykir of subbulegt.

Foster var handtekinn eftir mikinn eltingaleik lögreglunnar, í síðasta mánuði. Í örvæntingu sinni stökk hann fram af brú, til þess að komast undan, en meiddist á höfði þegar hann lenti á báti sem var að sigla undir brúna. Hann er sakaður um sviksamlega starfsemi á Fiji eyjum.

Foster þessi olli Tony Blair nokkrum vandræðum þegar hann hafði milligöngu um kaup á tveim íbúðum fyrir Cherie Blair, fyrir tveim árum. Ekkert reyndist athugavert við þau viðskipti, en Blair kaus að biðja þjóðina afsökunar á þessu, þegar langur svikaferill Fosters var gerður opinber.

Opinber ákærandi á Fiji eyjum mótmælti því að Foster fengi að flytjast á hótel, en dómarinn sagði að hann ætti ekki annarra kosta völ, þar sem hæstiréttur eyjanna hefði fyrir nokkru úrskurðað að fangelsið stæðist ekki kröfur um hreinlæti og aðbúnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×