Innlent

Þolinmæði aðstandenda aldraðra á þrotum

Þolinmæði aðstandenda og baráttufólks um bættan hag aldraðra er á þrotum og því verður efnt til baráttufundar í Háskólabíói þann 25. nóvember þar sem þess verður krafist að Alþingi og ríkisstjórn leggi stóraukið fjármagn í málaflokkinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Aðstandendafélagi aldraðra og Félagi aðstandenda alzheimerssjúklinga.

Tilefni fundarins er yfirlýsing heilbrigðisráðherra um uppbyggingu hjúkrunarheimila á næstu fjórum árum en til hennar eru ætlaðir 1,3 milljarðar sem ætlunin er að leggja fram á árunum 2008 og 2009. Við þetta eru aðstandendur aldraðra ekki sáttir og vilja aðgerðir strax.

Benda þeir meðal annars á að nú séu 1000 einstaklingar í bráðri þörf á biðlistum eftir hjúkrunarrými þrátt fyrir yfirlýsingar heilbrigðisráðherra um að biðlistar séu að styttast og að nærri 300 manns búi enn í fjölbýli á hjúkrunar- og dvalarheimilum.

Þá sé mjög alvarlegur skortur á úrræðum fyrir alzheimerssjúklinga, bæði í bráð og lengd. Enn fremur er bent á að hátt í þrír milljarðar af fé sem lagt hefur verið í Framkvæmdasjóð aldraðra á undanförnum árum hefur farið í önnur verkefni en byggingu hjúkrunarheimila. Því fé ætti ríkisvaldið að skila strax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×