Skipstjóri olíuskipsins, sem er skráð í Líberíu, sagðist hafa komið að landinu til að leita skjóls fyrir sjólagi. Þegar honum var tjáð að von væri á allt að níu metra ölduhæð suður af landinu sneri hann skipinu frá landi og hélt suð-vestur um, að sögn Ásgríms L. Ásgrímssonar yfirmanns Vaktstöðvar siglinga.
Ásgrímur segir að stöðugt beri meir á olíuflutningaskipum á þessari leið, innan íslenskrar efnahagslögsögu en utan tólf mílna lögsögunnar. Landhelgisgæslan og Siglingastofnun fylgist með slíkum skipum þegar þau komi inn í AIS eftirlitskerfið, en þeim beri ekki að gera vart við sig.
Ásgrímur segir að ýmislegt í framtíðarskipulagi og uppbyggingu stofnananna miði að því að geta markvisst fylgst með ferðum þessara skipa til að geta brugðist við ef eitthvað bjátar á. NS Pride er svo til nýtt, eitt af 23 samskonar skipum sem hafa verið smíðuð frá 2002.