Innlent

Samgöngurráðherra vill skoða styttingu vegar á þremur stöðum

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra vill skoða styttingu þjóðvegarins milli Akureyrar og Reykjavíkur á þremur stöðum, samtals um allt að tuttugu kílómetra, samkvæmt svari við fyrirspurn Halldórs Blöndals, fyrrverandi samgönguráðherra. Halldór segir hugmyndir Sturlu óraunhæfar, vegur um Stórasand sé miklu vænlegri leið tl styttingar.

Halldór spurði samgönguráðherra hvaða vegaframkvæmdir væru nú í athugun við endurskoðun samgönguáætlunar næstu tólf ára til styttingar á þessari leið og fékk það svar að þrír staðir kæmu til skoðunar: um Grunnafjörð nálægt Akranesi þar sem stytting gæti orðið um 1 km, um Svínavatn í Austur-Húnavatnssýslu þar sem stytting gæti orðið 15-16 km og loks í Skagafirði þar sem stytting gæti orðið 2-3 km.

Halldór segir styttingu um Grunnafjörð útilokaða vegna kostnaðar og náttúruverndarsjónarmiða. Þá færu menn ekki í nýja brúargerð yfir Héraðsvötn fyrir svo litla styttingu. Hann telur að menn eigi að hugsa stærra og stefna að vegagerð um Stórasand, annaðhvort með tengingu í Borgarfjörð eða um Kaldadal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×