Fastir pennar

Rugluð samgöngustefna, loforðaglaðir ráðherrar, prófkjör nyrðra

Alveg er það óskiljanlegt hvers vegna ekki má gera eins og aðrar þjóðir og leggja á vegartoll til að fjármagna vegaframkvæmdir. Hvar sem maður keyrir hraðbrautir í útlöndum þarf maður að greiða fyrir að ferðast á þeim. Almennt fer best á því að fólk greiði fyrir það sem það notar, en láti ekki einhverja aðra borga fyrir sig. Þetta gildir líka um vegi. En á þetta má varla minnast hér. Hraðbraut austur í Ölfus ætti auðvitað að leggja með þessum hætti - og hví þá ekki Sundabraut líka?

Stefnan í samgöngumálum er kolgeggjuð og hefur verið lengi. Nú er vegagerðin í óða önn að bora á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, tveggja smáplássa við ysta haf, meðan enn er verið að fresta Sundabrautinni. Það er ekkert spurt um hagkvæmni eða hversu margir muni aka vegina. Passað var upp á að falsa tölur um ætlaða umferð í Héðinsfjarðargöngum. Og nú eru Sunnlendingar að reyna að koma Suðurlandsveginum á dagskrá stjórnmálanna, en hann er ekki einu sinni inn á vegaáætlun til tólf ára.

Um hálendisveg milli Reykjavíkur og Akureyrar er ekki hægt að ræða af alvöru, þótt ljóst sé að hann myndi stytta leiðina milli helstu byggðakjarna landsins verulega. Stjórnmálamenn sem eru æfðir í þankagangi hrepparígs og sérhagsmunapots eru hræddir um að þannig myndu einhverjar þjóðvegasjoppur missa spón úr aski sínum.

--- --- ---

Á meðan kemur samgönguráðherrann í fjölmiðla og fabúlerar um framkvæmdir sem gætu litið dagsins ljós löngu eftir að hann er hættur - eða einhvern tíma hlýtur Sturla að hætta? Hann nefnir tvíbreiðan veg norður til Akureyrar og austur að Markarfljóti.

Það er auðvitað að koma kosningarár. Siv Friðleifsdóttir er búin að gefa loforð af svipuðum toga um uppbyggingu öldrunarþjónustu sem er alveg óvíst að hún geti staðið við. Það er búið að setja hundrað milljónir í íslenskukennslu fyrir útlendinga, mörg hundruð milljónir í kvikmyndagerð - allt án þess að Alþingi hafi verið spurt álits.

Það liggur við að maður fari að rifja upp gömlu loforðin um menningarhús í alla fjórðunga - ég man reyndar ekki betur en að þau hafi verið fjölnota - og um milljarðinn sem átti að setja í að berjast gegn fíkniefnabölinu.

Ein hugmyndin var reyndar að gera Ísland fíkniefnalaust fyrir árið 2000, en líklega hefur aldrei nokkurn tíma verið dópað jafn mikið og núna.

--- --- ---

Ég kveikti á því að Þorvaldur Ingvarsson læknir sem er að berjast um fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi bjó andspænis mér þegar við vorum að alast upp, ég í Ásvallagötunni, hann í Brávallagötunni, hvor sínu megin við sundið sem nefndist í daglegu tali Bakkó.

Þorvaldur segir fá því á vefsíðu sinni að hann hafi verið sendill í hinni göfugu verslun Pétursbúð (þar sem nú er Kjötborg bræðranna Gunnars og Kristjáns) - jú, eitthvað rámar mig í hann á stóra svarta sendlahjólinu. Þorvaldur virðist vera efnilegur frambjóðandi, hámenntaður læknir sem setur fram hugmyndir um meiri fjölbreytileika í heilbrigðisþjónustunni. Það er mál sem allt of margir eru hræddir við að ræða af ótta við sjálfvirka hneykslunarbylgju sem vill rísa þegar þetta er nefnt.

Annars er þetta spennandi barátta fyrir norðan. Lókalpatríótar á Akureyri eru grútspældir vegna þess að sama og engir úr bænum eru í almennilegum sætum á framboðslistum. Margir hafa talað um að Kristján Þór Júlíusson eigi fyrsta sætið víst, sérstaklega eftir að hann fékk góða kosningu í varaformannskjöri hjá Sjálfstæðisflokknum í fyrra. Kristján á glæsilegan feril að baki sem bæjarstjóri á Dalvík, Ísafirði og Akureyri. Hann er samt umdeildur og sumir segja að varaformannskosningin hafi ekki verið mæling á styrk hans, heldur fyrst og fremst speglað hversu margir eru ósáttir við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.

--- --- ---

Arnbjörg Sveinsdóttir sækist líka eftir fyrsta sætinu fyrir norðan. Spurning hvort það hefur einhver áhrif á stöðu hennar að konur hafa verið að fá hrikalega útreið í landsbyggðarkjördæmum. Skilaboðin eru einfaldlega - landsbyggðin vill ekki konur.

Eins og stendur sýnist manni að einungis ein kona úr dreifbýliskjördæmunum þremur sé örugg með þingsæti, það er sjálf Valgerður Sverrisdóttir. Herdís Sæmundsdóttir gæti náð inn í Norðvesturkjördæmi og svo bíður maður og sér með Arnbjörgu.

Með henni í prófkjörinu er líka ung kona af góðum ættum, Ólöf Nordal, sem stóð sig býsna vel í þætti hjá mér á sunnudag.

Í síðustu kosningum voru norðanmenn búnir að fá gjörsamlega nóg af Halldóri Blöndal og Tómasi Olrich. Fylgið tættist af flokknum þegar þeir birtust aftur í kjördæminu og lenti hjá Framsókn sem fékk óvenju góða kosningu, náði inn fjórum mönnum. Ég kom til Akureyrar stuttu fyrir kosningarnar og maður fann einhvern veginn sveifluna til Framsóknar í loftinu. Það endurtekur sig varla.

--- --- ---

Ég sé á vefnum að hinn gagnmerki bloggari Björgvin Valur á Stöðvarfirði er genginn úr Samfylkingunni. Þessi góði jafnaðarmaður gefur enga skýringu á því.






×