Innlent

Ölgerðin varar við hugmyndum um hækkun áfengisgjalds

MYND/GVA

Fyrirhugaðar breytingar á áfengisgjaldi og virðisaukaskatti á áfengi munu hafa í för með sér stórfelldar verðhækkanir á áfengi að óbreyttu að mati Ölgerðar Egils Skallagrímssonar. Bendir fyrirtækið á að með fyrirhuguðum lagabreytingum standi tekjur ríkissjóðs ekki í stað heldur munu aukast sem sé öfugt við það sem haft hafi verið eftir fjármálaráðherra í fjölmiðlum. Vara forvarsmenn Ölgerðarinnar við hugmyndunum eins og þær liggja fyrir nú.

Í tilkynningu frá Ölgerðinni kemur fram að ef breytingarnar á áfengisgjaldi verði að veruleika muni flaskan af Smirnoff-vodka t.d. hækka um rúm 27 prósent, brennivínsflaskan um fjórðung, Rosemount-rauðvín í þriggja lítra kassa um tæp 16 prósent og hálfs lítra dós af Egils Gulli um tæp fimmtán prósent. Miðast verðbreytingarnar við að virðisaukaskattur fari í 7 prósent og áfengisgjald hækki um 58 prósent eins og lagt er til í frumvarpi fjármálaráðherra.

Hvetur Ölgerðin ráðamenn til að endurskoða hækkunina á áfengisgjaldi í kjölfar lækkunar á virðisaukaskatti svo gjaldheimta standi í stað í heildina litið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×