Innlent

Slökkvistarfi lokið í Rimaskóla

MYND/Stöð 2
Slökkvistarfi í Rimaskóla lauk nú á áttunda tímanum en þangað var slökkviliðið kallað um sexleytið vegna elds í klæðningu á íþróttahúsi skólans. Allt tiltækt slökkvilið var sent á staðinn og taldi slökkvilið sig hafa komist fyrir eldinn um klukkan hálfsjö. Hann blossaði hins vegar upp aftur og læsti sig í þakið þannig að slökkvilið þurfti að rjúfa þakplötur til þess að komast að honum.

Að sögn Gunnars Arnar Péturssonar varðstjóra sem var á staðnum þurfti að rífa bæði hluta af klæðningu á vegg skólans og þaki til þess að komast að eldinum en vatn komst inn í skólann og sömuleiðis reykur.

Gunnar segir að töluverðar skemmdir hafi orðið á þakinu og af völdum vatns og reyks en hann á ekki von á að fresta þurfi kennslu eftir áramót vegna þess að nú fari í hönd frítími í skólanum þar sem hægt verði að gera við skemmdirnar.

Aðspurður um eldsupptök segir Gunnar að grunur sé um íkveikju því ekkert rafmagn hafi verið þar sem eldurinn kom upp eða annað sem gefi tilefni til að ætla að það hafi kviknað í af öðrum ástæðum. Í tilkynningu frá slökkviliði fyrr í kvöld kemur fram að sést hafi til þriggja pilta í nágrenninu skömmu áður en eldurinn gaus upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×