Erlent

Magn eiturefna hefur áhrif á stærð kynfæra

Kynfæri ísbjarna á Grænlandi fara minnkandi, að því er virðist í samhengi við hversu hátt hlutfall eiturefna er í líkama þeirra. Danskur vísindamaður hefur vakið heimsathygli vegna þessarar niðurstöðu, sem hann segist hafa komist að fyrir tilviljun.

Danskar umhverfisrannsóknir hafa lengi fylgst með lífríkinu á Grænlandi, en við austurströnd landsins safnast saman mengun frá Ameríku, Evrópu og Asíu. Ísbirnir eru áhugavert rannsóknarefni þar sem þeir eru nálægt mönnum í fæðukeðjunni. „Ísbirnir og menn innihalda einna mest eiturefna, þegar litið er til eituráhrifa á lífverur."

Christian Sonne leiddi rannsókn sem sýndi fram á samhengi milli mengunar og stærðar kynfæra ísbjarna. Mestur reyndist munurinn vera þrjátíu og fimm prósent. „Það þýðir að bein getnaðarlimsins minnkar í þessa stærð. Og ísbjörn sem er ómengaður gæti haft lengra bein í getnaðarlimnum."

Minni kynfæri gera pörun dýranna erfiðari, og niðurstöðurnar eru ekki síður merkilegar í ljósi rannsókna á ófrjósemi í mönnum. Fjölmiðlar um allan heim hafa sýnt málinu áhuga. Aðeins hálftíma eftir að niðurstöðurnar voru birtar á vef vísindatímarits hringdi fyrsti fréttamaðurinn. „Næsta hálfa mánuðinn var hringt í mig tíu sinnum á dag. Bæði þótti fólki fréttin áhugaverð og ekki síður vöktu kynfærin athygli fjölmiðlanna."

Þessar mikilvægustu rannsóknarniðurstöður sínar á ferlinum uppgötvaði Christian af hreinni tilviljun. „Ég var að skoða gögnin í tölvunni eitt föstudagssíðdegi, og skyndilega sá ég mynstur sem gaf til kynna að kynfæri bæði karl- og kvendýra væru minni eftir því sem meira var af eiturefnum í líkama þeirra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×