Hlustendaverðlaun FM 957 voru afhent með pompi og prakt í Borgarleikhúsinu í fyrrakvöld. Hljómsveitin Jeff Who? var sigurvegari kvöldsins með þrenn verðlaun.
Jeff Who? fékk verðlaun sem hljómsveit ársins, nýliði ársins og fyrir lag ársins, Barfly. Magni Ásgeirsson fékk tvenn verðlaun; annars vegar sem söngvari ársins og hins vegar fyrir tónleika ársins, Rockstar-tónleikana í Höllinni, sem hann hafði veg og vanda af.
Stúlknasveitin Nylon fékk tvenn verðlaun; fyrir myndband ársins við lagið Closer, auk þess sem Klara Ósk Elíasdóttir var kjörin söngkona ársins. Loks var plata Sálarinnar hans Jóns míns, Undir þínum áhrifum, valin plata ársins. Heiðursverðlaun FM 957 hlaut skemmtikrafturinn Laddi, sem varð sextugur á dögunum.
