Erlent

Bush ætlar ekki að bregðast við

 George W. Bush Bandaríkjaforseti hyggst ekki bregðast við svartri skýrslu sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar með því að gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar. Ríkisstjórnir um heim allan eru sammála um það að eitt brýnasta verkefni sem heimurinn stendur frammi fyrir sé að bregðast snarlega við og draga úr hlýnun loftslags.

Skýrsluna unnu á þriðja þúsund vísindamanna frá 113 ríkjum og í henni eru boðaðar hörmungar verði ekkert að gert auk þess sem fram kemur að 90 prósenta líkur séu á því að loftslagsbreytingar séu af manna völdum

Loftslagsráðstefna SÞ hélt áfram í París í gær og hvatti Jacques Chirac Frakklandsforseti þjóðir heims til að setja umhverfismálin í forgang. Flestar Evrópuþjóðir, sem og aðrar, fögnuðu tillögu Chiracs um stofnun sem gæti mótað reglur um loftslagsmál og jafnvel knúið ríki til að framfylgja þeim.

Þau ríki sem mest megna, meðal annars Bandaríkin, Kína. Indland og Rússland, héldu sig til hlés í umræðunni. Chirac lýsti óánægju sinni með það að sannfæra þyrfti sumar stórar þjóðir um mikilvægi málaflokksins, en nefndi þó aldrei Bandaríkin né aðrar þjóðir á nafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×