Tónlist

Músiktilraunir í nánd

tónlist Músíktilraunir renna upp í mars og er það í 25. skipti sem þær eru haldnar. Myndin var tekin í fyrra.
tónlist Músíktilraunir renna upp í mars og er það í 25. skipti sem þær eru haldnar. Myndin var tekin í fyrra.

Nú er farið að kynda undir Músík-tilraunirnar sem verða þetta árið haldnar í Loftkastalanum og lokaúrslitin í Verinu á Seljavegi vestast í vesturbænum gamla í Reykjavík.

Grasrótin lengi lifir því nú er að renna upp 25. hátíð bílskúrsbandanna en Músiktilraunir hafa staðið í 26 ár og hafa þar margir fengið sitt brautargengi: fjöldamargar hljómsveitir og tónlistarmenn hafa þar fengið tækifæri til virkrar þátttöku á vettvangi tónlistar.

Músíktilraunir verða haldnar í Loftkastalanum vikuna 19.-23. mars en úrslitakvöldið verður haldið í Verinu laugardaginn 31. mars og er þar brugðist við vandræðum liðinni ára þegar margir hafa þurft frá að hverfa því jafnan er fullt á lokakvöldið.

Í dag verður opnuð ljósmyndasýning í Ráðhúsi Reykjavíkur við Vonarstræti með ljósmyndum af Músíktilraunum 2006. Til sýnis verða myndir af öllum hljómsveitunum sem tóku þátt í fyrra. Alls er þetta því 51 mynd sem ljósmyndarinn Billi (Brynjar Gunnarsson) tók á undankvöldum Músíktilrauna 2006. Sýningin mun standa til og með sunnudagsins 18. febrúar.

Við opnun ljósmyndasýningarinnar verður kynnt samstarf Músiktilrauna og Hins hússins við Icelandair en fyrirtækið veitti í fyrra fyrstu verðlaun í keppninni: skemmti- og kynningarferð til Manchester. Auk Icelandair, Tónabæjar og Hins hússins kemur FÍH, Félag íslenskra hljómlistarmanna, að hátíðinni og allar hljóðfæraverslanir í höfuðborginni sem leggja sitt á vogarskálarnar.

Verður brátt opnað fyrir skráningu í Músíktilraunirnar 2007 fyrir hljómsveitir og listamenn af öllu landinu. Eins og jafnan verður útvarpað beint frá hátíðahöldunum á Rás 2 og stefnt er að samningum um beina útsendingu í sjónvarpi á lokakvöldinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×