Menning

Þekkir þú myndefnið?

Glöggir og minnugir gestir eru sérlega velkomnir í Minjasafn Akureyrar Leitað er liðsinnis við að koma nöfnum á óþekktar myndir ljósmyndadeildarinnar.
Glöggir og minnugir gestir eru sérlega velkomnir í Minjasafn Akureyrar Leitað er liðsinnis við að koma nöfnum á óþekktar myndir ljósmyndadeildarinnar.

Ljósmyndadeild Minjasafnsins á Akureyri státar af safnkosti upp á 2,5 milljónir mynda. Margar myndanna eru óþekktar og nú óskar Minjasafnið eftir aðstoð almennings við að koma nafni á andlit og heiti á hús og önnur mannvirki.

Af því tilefni opnar safnið sýninguna „Þekkir þú... híbýli mannanna?“ í dag kl. 14. Á sýningunni er að finna sjötíu myndir sem þekktir og óþekktir ljósmyndarar tóku fyrr á tímum. Meðal þekktra ljósmyndara sem eiga myndir á sýningunni má nefna Hallgrím Einarsson og Arthur Gook. Flestar myndanna eru frá Akureyri og úr Eyjafirði en einnig frá öðrum landshlutum.

Í sólstofunni er hægt að fletta myndum af óþekktum einstaklingum auk möppu með mannamyndum úr eigu Minjasafnins sem birtust í Degi á árunum 1990-2000. Einnig verða nokkrir sérstæðir gripir úr Minjasafninu til sýnis. Þeir eru óvenjulegir og sumir óþekktir, og geta gestir spreytt sig á að finna út heiti þeirra og hlutverk.

Í tilefni af tuttugu ára afmæli ljósmyndadeildar Minjasafnsins mun Hörður Geirsson safnvörður vera með sérstaka kynningu á tækjum og ljósmyndatækni ólíkra tímabila í dag og þann 24. mars kl. 14. Þá geta menn kynnt sér hvernig myndir urðu til allt frá því að þær voru teknar á myndavélina til þess að standa í ramma á heiðursstað á heimilinu.

Sýningin er opin alla laugardaga milli 14-16. Aðgangur á safnið er ókeypis meðan á sýningunni stendur til 28. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.