Tónlist

Dionysos lýkur Vetrarhátíðinni í kvöld

Franska rokksveitin spilar í Hafnarhúsinu í kvöld klukkan 22.
Franska rokksveitin spilar í Hafnarhúsinu í kvöld klukkan 22.

Franska rokksveitin Dionysos heldur tónleika í Hafnarhúsinu í kvöld. Tónleikarnir eru lokahnykkur Vetrarhátíðar í Reykjavík. Dionysos er frá Valence í Frakklandi og leit fyrst dagsins ljós fyrir tíu árum. Frægðarsól hennar hefur risið hægt og sígandi og nýtur hún í dag töluverðra vinsælda í heimalandi sínu.

Tónlist hennar er sérstök blanda af poppi og þjóðlagarokki, full orku og koma áhrifin víða að. Að mati margra franskra tónlistartímarita er Dionysos ein af bestu frönsku hljómsveitum samtímans og sögð lifandi sönnun þess að frönsk sköpunargáfa lifir enn góðu lífi. Þykir sveitin jafnframt sérstaklega öflug á tónleikum.

Dionysos hefur gefið út fimm plötur og heitir sú nýjasta Monsters In Love og er að hluta til á ensku. Var hún tekin upp í apríl árið 2005 af John Parish, sem hefur áður unnið með Goldfrapp, PJ Harvey og Tracy Champan. Þess má geta að Dionysos vann með upptökustjóranum Steve Albini að metsöluplötu sinni Western sous la neige. Albini er m.a. þekktur fyrir samstarf sitt með Nirvana og Pixies.

Ókeypis er á tónleika Dionysos í Hafnarhúsinu og hefjast þeir klukkan 22.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×