Fastir pennar

Enginn Þrándur í Götu

í dag komast formleg samskipti Færeyinga og Íslendinga á eins konar hástig. Opna á í Þórshöfn skrifstofu aðalræðismanns Íslands í Færeyjum. Að því leyti markar þessi dagur þau tímamót í færeyskri stjórnmálasögu að fyrsti útsendi erlendi sendierindrekinn sest nú þar að.

Það er sæmd að því fyrir Íslendinga að eiga þennan dag sameiginlegan með Færeyingum. Hugur þeirra gagnvart Íslandi er einstakur. Í færeyska blaðinu Sosialurin birtist fyrir skömmu skopmynd í tilefni af þessum atburði með svohljóðandi texta: „Fyrsti útlendski sendihirrin í Föroyum er ikki útlendingur, men íslendingur."

Á einfaldari og skýrari hátt er tæpast unnt að lýsa sambandi tveggja þjóða. Það á að vera okkur hugarhaldið að sýna Færeyingum sama þel. Opnun aðalræðismannsskrifstofunnar er vottur um vilja í þeim efnum. Skrifstofa af þessu tagi hefur verið til umræðu og umhugsunar í nokkur ár. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra á lof skilið fyrir að gera þau orð að veruleika.

Mikill fengur er að því að hafa fengið Eið Guðnason fyrrum umhverfisráðherra og einn af forystumönnum gamla Alþýðuflokksins til þess að takast á hendur brautryðjanda hlutverkið í þessum efnum. Hann hefur verið athafnasamur sendiherra meðal annars í Kína. En framhjá því verður ekki litið að baksvið hans í stjórnmálum gefur þessu nýja skrefi í samskiptum landanna aukið vægi.

Þegar Jógvan Sundstein var lögmaður Færeyja á sínum tíma nefndi hann með óformlegum hætti, sennilega fyrstur manna,framtíðar hugmyndir um einhvers konar efnahagsbandalag milli þjóðanna. Með vissum hætti má segja að þær hafi orðið að veruleika með Hoyvíkur samningunum svonefnda sem undirritaður var fyrir tæpum tveimur árum.

Sá samningur felur í sér frjálsan innri markað landanna tveggja með mjög víðtækum hætti. Það er raunar umfangsmesti samskiptasamningur okkar við nokkurt land. Davíð Oddsson þáverandi utanríkisráðherra tók þau samningamál föstum tökum og á öðrum fremur heiður af því að þeirri gerð var lokið á jafn myndarlegan hátt og raun ber vitni. Þar er nú jarðvegur fyrir dugmikla athafnamenn á öllum sviðum til að plægja og rækta.

Innflutningur frá Færeyjum hefur verið nokkuð sveiflukenndur en er nú tvöfalt meiri en fyrir fimm árum. Innflutningurinn er þó aðeins þriðjungur af því sem við flytjum út til Færeyja. Við liggur að Færeyingar kaupi jafn mikið frá Íslandi eins og Svíar og Finnar til samans. Hvort tveggja þetta sýnir að viðskipti landana blómstra. Satt best að segja hallar heldur á okkur í þeim efnum.

Poul Mohr hefur lengi verið aðsópsmikill ræðismaður Íslands í Færeyjum. Þar fer sannur Færeyingur og Íslandsvinur. Hann er góður og rismikill fulltrúi þeirrar menningarþjóðar sem Færeyingar eru. Aukheldur hafa Íslendingar átt þar hauk í horni sem ástæða er til að meta og þakka.

Að öllu virtu má með sanni segja að þessi dagur marki ekki aðeins tímamót í samskiptum landanna. Hann er á sinn hátt enn ein staðfesting á því að á þeim gagnvegum finnst enginn Þrándur í Götu.






×