Tónlist

Útgáfusamningur í verðlaun

Getrvk.com efnir til hæfileikakeppni fyrir tónlistarfólk í samstarfi við Ölgerðina og Reykjavík FM. Carmen og Erla vilja sjá sem flesta í áheyrnarprufunum í vikunni.
Getrvk.com efnir til hæfileikakeppni fyrir tónlistarfólk í samstarfi við Ölgerðina og Reykjavík FM. Carmen og Erla vilja sjá sem flesta í áheyrnarprufunum í vikunni. MYND/Heiða

Vefritið GetReykjavík stendur fyrir hæfileikakeppni fyrir upprennandi tónlistarfólk í samstarfi við Ölgerð Egils Skallagrímssonar og Reykjavík FM 30. apríl næstkomandi. Keppnin sjálf fer fram í Iðnó, en áheyrnarprufur verða haldnar á Barnum í kvöld og annað kvöld. Prufurnar eru opnar fólki á öllum aldri, en skilyrði fyrir þátttöku er að keppendur hafi ekki gefið út tónlist áður, að netinu undanskildu.

„Það eru náttúrulega til nokkrar tónlistarkeppnir, eins og bara Músík­tilraunir, en það eru alltaf einhver aldurstakmörk,“ sagði Carmen Jóhannsdóttir, ritstýra GetReykjavík. „Það er fullt af fólki í bænum sem hefur ekki gefið neitt út nema á netinu, til dæmis á Myspace, sem hefur ótrúlega mikið „potential“. Við viljum bara fá sem flesta til að koma,“ sagði hún. GetReykjavík velur átta til tíu keppendur úr áheyrnarprufunum sem fá að stíga á svið í Iðnó.

Það er til mikils að vinna fyrir tónlistarfólk, því í fyrstu verðlaun er útgáfusamningur og stúdíótími í boði Cod Music. Í önnur verðlaun er Logic Pro upptökuforrit frá Apple.

Áheyrnarprufur fara fram á milli 18 og 23 í kvöld og annað kvöld. Keppnin í Iðnó, mánudaginn 30. apríl, hefst klukkan 22.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.