Menning

Óvenjuleg listapör

Davíð Örn Halldórsson og Sigrún Huld Hrafnsdóttir deila ást á myndlist og sýna saman verk í Norræna húsinu. Hér gefur að líta verk eftir Sigrúnu.
Davíð Örn Halldórsson og Sigrún Huld Hrafnsdóttir deila ást á myndlist og sýna saman verk í Norræna húsinu. Hér gefur að líta verk eftir Sigrúnu.

Óvenjuleg myndlistarsýning á vegum hátíðarinnar List án landamæra verður opnuð í Norræna húsinu í dag. Þetta er sannkölluð parasýning þar sem fimmtán ólíkir listamenn sameina krafta sína en meðal þátttakenda eru meðal annars pörin Gauti Ásgeirsson og Finnbogi Pétursson, Halldór Dungal og Hulda Hákon og Guðrún Bergsdóttir og stúlkurnar í Gjörningaklúbbnum.

Myndlistarfólkið Davíð Örn Halldórsson og Sigrún Huld Hrafnsdóttir, sem einnig er kunn fyrir afrek sín á íþróttasviðinu, unnu saman að verkinu „Kofaköttur“. „Þetta er stórt málverk á viðarplötu, unnið með blandaðri tækni,“ útskýrir Davíð. „Við erum bæði úthverfabörn og alin upp í Breiðholti svo það mætti segja að viðfangsefnið væri samspil úthverfanna og náttúrunnar.“

Davíð segir að samstarfið hafi gengið vel og þau séu bæði við stjórnvölinn en hlutverk hans hafi meðal annars verið að stækka sýn samstarfskonu sinnar. „Ég sá strax að Margrét [M. Norðdahl, framkvæmdastjóri Listahátíðar án landamæra] hafði haft rétt fyrir sér að para okkur saman. Við erum bæði mjög litrík og alveg smellpössum saman.“

Davíð er mjög ánægður með þetta framtak. „Þetta er ótrúlegt fyrirbæri, það eru frjóir hugar sem standa að baki þessu og myndlist þátttakendanna er það líka. Ég hef sjálfur verið að vinna svolítið með utangarðsmyndlist og gat því ekki afþakkað svona tækifæri. Svo er auðvitað dásamlegt að kynnast Sigrúnu og hennar myndum.“

Samstarfsverkefninu eru margskonar. Til dæmis sýnir myndlistarkonan Hulda Hákon verk sem blindir geta skoðað með höndunum. Hennar samstarfsmaður Halldór Dungal er aftur blindur málari sem sýnir verk fyrir sjáandi. Tolli og Gígja Thoroddsen sýna málverk af fólki, þar af eitt sem þau unnu í sameiningu, og Guðrún Bergsdóttir og Gjörningaklúbburinn sýna innri mynstur, textíl og vídeóverk sem þessar fjórar listakonur hafa unnið saman.

Sýningin verður opnuð kl. 15 í dag en hún stendur til 3. júní. Hún er opin alla daga nema mánudaga milli 12 og 17.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.