Tónlist

Flestir fá borgað undir borðið

Bjarni Ara gefur alla sína vinnu upp til skatts. Segir laun sín samkomulagsatriði hverju sinni.
Bjarni Ara gefur alla sína vinnu upp til skatts. Segir laun sín samkomulagsatriði hverju sinni.

„Ég gef allt mitt upp til skatts. Hvað ég tek svo fyrir þetta er síðan bara samkomulag og snýr að umfangi og öðrum þáttum,“ segir Bjarni Arason, söngvarinn góðkunni. Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær eru þó nokkrir íslenskir söngvarar margbókaðir í brúðkaup þann 07.07.07 en þá verður væntanlega slegið nýtt met í því að gefa fólk saman frammi fyrir Guði og mönnum. Söngvarar á borð við Diddú og Bjarna voru til að mynda fjórbókaðir þennan dag en sá sem reyndist vera kóngurinn í þessum fræðum var Páll Óskar Hjálmtýsson; hann var bókaður í sjö brúðkaup.



Þegar Fréttablaðið kynnti sér þetta mál kom í ljós að fáir söngvarar vildu gefa upp hversu mikið þeir fengju greitt fyrir að syngja í brúðkaupum. Greiðslurnar virðast enda oftast ekki gefnar upp til skatts. Samkvæmt skattalögum ber þó tónlistarfólki að gefa upp þessar tekjur sínar. „Þetta eru tekjur og eru því tekjuskattskyldar. Starfsemi tónlistarmanna sem og annarra listamanna er hins vegar undanþegin virðisaukaskatti,“ sagði Ragnar Guðmundsson hjá Ríkisskattsstjóra.



Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins má hafa nokkuð gott upp úr því að syngja fyrir hin nýgiftu en upphæðirnar eru misjafnar eftir því hver á í hlut. Þannig heyrðust tölur frá fjörutíu og fimm þúsund krónum og upp í 270 þúsund krónur fyrir eina athöfn en síðastnefnda upphæðin þykir einstök enda umræddur tónlistarmaður síður en svo þekktur fyrir að syngja í brúðkaupum. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er þetta sjálfur Bubbi Morthens en ekki náðist í hann til að fá þessa tölu staðfesta.

Garðar Thor Cortes söng á upphafsárum sínum í ófáum brúðkaupum en það hefur heldur betur breyst eftir að hann tók Bretland með trompi. Einar Bárðarson sagði í samtali við Fréttablaðið að fáir hefðu efni á því að láta stórtenórinn syngja í hjónavígslunni hjá sér en viðurkenndi þó að Garðar myndi syngja í örfáum þetta sumarið. „Menn af hans gæðaflokki eiga hins vegar ekki að þurfa að syngja í svona sér til framfæris.“



Algengast er að vinsælir popptónlistarmenn taki í kringum 70-75 þúsund krónur en oftast syngja þeir þá þrjú lög við athöfnina. Hins vegar vakti athygli að þeir sem jafnan eru taldir vera bestir í sínu fagi virðast taka mun lægri upphæð og þar fara þau Bergþór Pálsson, Diddú, Egill Ólafsson og Páll Óskar Hjálmtýsson fremst í flokki. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kostar það á bilinu 35 til 45 þúsund krónur að fá eitthvert þeirra til að syngja. Hljóðfæraleikarar taka hins vegar mun lægri upphæðir fyrir spilamennsku sína og kosta ekki nema 25 þúsund krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.