Orð sem féllu í skugga 1. ágúst 2007 05:45 Þegar iðnaðarráðherra talar er jafnan eftir því tekið. Nýlega lét hann þó orð falla um stjórnkerfi ríkisins sem minni athygli hafa vakið en þau verðskulda. Aldrei þessu vant er eins og orð hans um það efni hafi fallið í skugga annarra umræðuefna síðustu vikur. Ráðherrann fullyrti í grein á heimasíðu sinni að við lifðum í ofstjórnunarþjóðfélagi. Tilefni svo afgerandi fullyrðingar voru fréttir af athugasemdum opinberra víneftirlitsmanna um fjölda stóla utan dyra við veitingastaði á sólardögum. Um þessa opinberu starfsemi sagði iðnaðarráðherra: „Af ákaflega skammri veru í ríkisstjórninni hallast ég eindregið að því að stjórnvöld hafi töluvert margt þarfara við fjármuni skattborgaranna að gera en senda umboðsmenn sína út á götur til að spilla lífsgleði friðsamra borgara um hábjartan dag." Ætla verður að iðnaðarráðherra hafi skyggnst um víðar í kerfinu með athugulu auga þegar hann dró af þessu dæmi þá ályktun að við lifðum í ofstjórnunarþjóðfélagi. Skörp ályktun ráðherrans gefur hins vegar tilefni til að velta upp þeirri spurningu hvort ekki geti verið rétt og skynsamlegt að endurmeta með kerfisbundnum hætti hlutverk opinberra stofnana. Þegar ný ríkisstjórn tók við völdum í Svíþjóð á síðasta ári var eitt af hennar fyrstu verkum að krefja ríkisstofnanir um endurnýjaðan rökstuðning fyrir tilveru sinni. Sú krafa hvílir á stjórnvöldum að nýta fjármuni skattborgaranna á sem hagkvæmastan máta. Markvisst og samræmt heildarmat af þessu tagi getur verið ein leið til að mæta slíkum kröfum. Liðinn tíðarandi getur hafa kallað á opinbera starfsemi sem ekki er þörf fyrir lengur. Í öðrum tilvikum getur komið í ljós að verkefnum eða starfsháttum þurfi að breyta. Þau dæmi munu líka koma í ljós við slíka skoðun að hugmyndir löggjafans hafi verið svo óskýrar í upphafi, þó að góður hugur hafi fylgt máli, að starfsemin hafi að sama skapi verið ómarkviss og árangurinn eftir því. Ratsjárstofnun hefur verið nokkuð til umræðu upp á síðkastið. Hún hefur verið rekin án lagaheimildar en með viðurkenningu í fjárlögum í tvo áratugi. Bandaríkin hafa fram til þessa kostað reksturinn. Í fjárlögum kemur fram að bandarískir skattgreiðendur hafa verið rukkaðir um rúmlega 1.200 milljónir króna á ári til að standa straum af rekstrinum. Þegar að því kom að stofnunin þurfti að rökstyðja tilveru sína fyrir íslenskum skattborgurum kom í ljós að unnt var að sinna viðfangsefninu fyrir rúmlega 800 milljónir króna. Og hugsanlega er unnt að vinna verkið fyrir enn lægri upphæð. Þetta dæmi sýnir glöggt að krafa um endurnýjaðan rökstuðning fyrir tilveru stofnana getur skilað miklum sparnaði. Í þessu tilviki munar nærri þriðjungi. Það er svo önnur saga að endurnýjaður rökstuðningur fyrir þessari starfsemi hefur ekki verið gerður opinber þó að viðkomandi ráðuneyti hafi á hann fallist. Ef ríkisstjórnin tekur brýningu iðnaðarráðherra um ofstjórnunarsamfélagið alvarlega má ná tvíþættu markmiði: Fyrst því að draga úr þeirri ofstjórn sem ráðherrann er andsnúinn og í annan stað að knýja fram breytingar sem skila betri nýtingu á peningum skattborgaranna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Stuðlar: neyðarástand í meðferðarkerfinu Böðvar Björnsson Skoðun
Þegar iðnaðarráðherra talar er jafnan eftir því tekið. Nýlega lét hann þó orð falla um stjórnkerfi ríkisins sem minni athygli hafa vakið en þau verðskulda. Aldrei þessu vant er eins og orð hans um það efni hafi fallið í skugga annarra umræðuefna síðustu vikur. Ráðherrann fullyrti í grein á heimasíðu sinni að við lifðum í ofstjórnunarþjóðfélagi. Tilefni svo afgerandi fullyrðingar voru fréttir af athugasemdum opinberra víneftirlitsmanna um fjölda stóla utan dyra við veitingastaði á sólardögum. Um þessa opinberu starfsemi sagði iðnaðarráðherra: „Af ákaflega skammri veru í ríkisstjórninni hallast ég eindregið að því að stjórnvöld hafi töluvert margt þarfara við fjármuni skattborgaranna að gera en senda umboðsmenn sína út á götur til að spilla lífsgleði friðsamra borgara um hábjartan dag." Ætla verður að iðnaðarráðherra hafi skyggnst um víðar í kerfinu með athugulu auga þegar hann dró af þessu dæmi þá ályktun að við lifðum í ofstjórnunarþjóðfélagi. Skörp ályktun ráðherrans gefur hins vegar tilefni til að velta upp þeirri spurningu hvort ekki geti verið rétt og skynsamlegt að endurmeta með kerfisbundnum hætti hlutverk opinberra stofnana. Þegar ný ríkisstjórn tók við völdum í Svíþjóð á síðasta ári var eitt af hennar fyrstu verkum að krefja ríkisstofnanir um endurnýjaðan rökstuðning fyrir tilveru sinni. Sú krafa hvílir á stjórnvöldum að nýta fjármuni skattborgaranna á sem hagkvæmastan máta. Markvisst og samræmt heildarmat af þessu tagi getur verið ein leið til að mæta slíkum kröfum. Liðinn tíðarandi getur hafa kallað á opinbera starfsemi sem ekki er þörf fyrir lengur. Í öðrum tilvikum getur komið í ljós að verkefnum eða starfsháttum þurfi að breyta. Þau dæmi munu líka koma í ljós við slíka skoðun að hugmyndir löggjafans hafi verið svo óskýrar í upphafi, þó að góður hugur hafi fylgt máli, að starfsemin hafi að sama skapi verið ómarkviss og árangurinn eftir því. Ratsjárstofnun hefur verið nokkuð til umræðu upp á síðkastið. Hún hefur verið rekin án lagaheimildar en með viðurkenningu í fjárlögum í tvo áratugi. Bandaríkin hafa fram til þessa kostað reksturinn. Í fjárlögum kemur fram að bandarískir skattgreiðendur hafa verið rukkaðir um rúmlega 1.200 milljónir króna á ári til að standa straum af rekstrinum. Þegar að því kom að stofnunin þurfti að rökstyðja tilveru sína fyrir íslenskum skattborgurum kom í ljós að unnt var að sinna viðfangsefninu fyrir rúmlega 800 milljónir króna. Og hugsanlega er unnt að vinna verkið fyrir enn lægri upphæð. Þetta dæmi sýnir glöggt að krafa um endurnýjaðan rökstuðning fyrir tilveru stofnana getur skilað miklum sparnaði. Í þessu tilviki munar nærri þriðjungi. Það er svo önnur saga að endurnýjaður rökstuðningur fyrir þessari starfsemi hefur ekki verið gerður opinber þó að viðkomandi ráðuneyti hafi á hann fallist. Ef ríkisstjórnin tekur brýningu iðnaðarráðherra um ofstjórnunarsamfélagið alvarlega má ná tvíþættu markmiði: Fyrst því að draga úr þeirri ofstjórn sem ráðherrann er andsnúinn og í annan stað að knýja fram breytingar sem skila betri nýtingu á peningum skattborgaranna.