Bakþankar

Billjónsdagbók 12.8.

OMXI15 var 8.280,24, þegar ég setti upp nýju 55.000 króna hlaupaskóna með metangashælpúðum og títaniljafjöðrun, og Nasdaq var 2.547,33 þegar ég hafði hlaupið tíu kílómetra og fannst ég jafnnálægt hruni og friðuðu grásleppuhjallarnir við Ægisíðu. Ég staulaðist niður í fjöru og tók pásu á bak við stein. Púlsinn var 178. Ég hef ekki verið nógu duglegur í ræktinni. Það er vika í maraþonið. Ég verð að fá meiri stamínu. Liðið í Þeirrabanka fær ekki að njóta þeirrar ánægju á laugardaginn að sjá stjórnarformann Sjálfsmínbanka síga niður eftir nokkra kílómetra á metangasskóm með títaniljafjöðrun.

Ég þorði ekki að hlaupa meira. Ég tók það rólega á bak við steininn, náði púlsinum niður, hringdi í einkó og bað hann að koma á Róvernum. Ég dundaði mér við að horfa yfir á Bessastaði á meðan ég beið. Ég sá að Dorrit var komin út að hengja upp þvott.

Það var fullt af fólki að æfa fyrir maraþonið á Ægisíðunni. Jafnvel Baddi í ÓP-fjárfestingum kom gjögtandi í skræpóttum sportgalla, maður sem verður andstuttur af því að taka upp flösku af Romanée Conti. En heilbrigður lífsstíll gengur fyrir öllu öðru. Baddi tölti þetta sisona með þjáningarsvip og handfrjálsan búnað. Það er svo mikil ókyrrð á markaðnum. Ég ætla að hlaupa með handfrjálsan í fyrramálið.

Það hringdi í dag einhver kvenmaður frá borginni og spurði hvort ég væri ekki til í að hafa opið hús á Smáragötunni á menningarnótt og bjóða gestum og gangandi upp á vöfflur. Ég er ennþá með verk í bringspölunum eftir hláturskastið. Heldur fólk virkilega að maður, sem er áberandi í tekjublöðum Frjálsrar verslunar og Mannlífs, fari að standa persónulega yfir vöfflujárni og hleypa inn á sig alls konar organískt trúuðu menningarpestóliði sem er með það á heilanum að það þurfi að „glæða mannlíf í miðbænum". Ég veit ekki hvað er að gerast í Reykjavík.

Þegar ég var strákur átti ég bók um „pönnukökukónginn". Núna á maður heima í bæ þar sem er „vöffluborgarstjóri". Hjallastefnan grefur svona um sig.

Annars er skrýtið að þessum tekjublöðum ber ekki saman um hvað ég hafði í tekjur í fyrra. Það munar 25 árslaunum kennara á mánuði. Bæði blöðin segjast með rétta tölu. Ég kann ekki að reikna út hvað ég var með í tekjur. Vildi bara að endurskoðandinn gæfi örugglega meira upp á mig á framtalinu en við héldum að stjórnarformaðurinn í Þeirrabanka vildi láta gefa upp á sig. Svona misræmi er óþolandi. Ég læt Sjálfsmínbanka neita blaðinu með lægri töluna um lengri greiðslufrest.






×