Bakþankar

Loppur á lyklaborðinu

Þórgunnur Oddsdóttir skrifar
Ýmsir spekingar hafa haldið því fram að það sé tungumálið sem greinir mennina frá dýrunum. Ég held það hljóti að vera á misskilningi byggt. Ég hef nefnilega komist að því að íslensk gæludýr eru ákaflega vel máli farin. Um það vitnar fjöldi heimasíðna á veraldarvefnum þar sem íslensk dýr af ýmsum tegundum blogga um reynslu sína og tilfinningar.

Þetta byrjaði með börnunum. Fyrir nokkrum árum hófu ómálga börn að skrifa dagbækur sínar á netið með tilkomu vefsvæða á borð við Barnaland.is. Aldurinn færðist neðar og neðar uns fóstur í móðurkviði tóku að hamra á lyklaborðið í gríð og erg. Bloggandi bumbubúar skipta nú tugum og fósturþroskinn er svo ör að sum byrja að tjá sig á rituðu máli strax eftir getnað. Samt sem áður féll það í grýttan jarðveg þegar piltur nokkur setti upp heimasíðu á Barnalandi í sumar þar sem hann bloggaði fyrir hönd sæðisfrumna sinna. Málæðið hefst við getnað. Sæðisfrumur og egg mega ekki blogga en okfrumur mega tjá sig að vild í fyrstu persónu.

Og nú hafa gæludýrin tekið til máls. Menn trúðu því hér áður fyrr að kýrnar gætu talað á nýársnótt en engan óraði fyrir þessari þróun. Kettir og kjölturakkar þeysast fram á ritvöllinn og deila skrifum sínum á netinu.

„Við kanínurnar erum bara hérna inni í sjónvarpsherbergi liggjandi á mjúkri mottu að slaka á," skrifar lífsglöð kanína á heimasíðuna sína á Dýraland.is og tekur það fram að hún hafi mennskan ritara á sínum snærum. Dagbækur dýranna eru ekki aðeins bráðskemmtilegar bókmenntir heldur er heimildargildi þeirra ótvírætt. Hugsið ykkur bara ef Sámur hans Gunnars á Hlíðar­enda hefði bloggað!

Tímaskortur er líklega það sem flestir kvarta undan í nútíma samfélagi. Við erum öll svo skelfilega upptekin. Það hlýtur líka að vera tímafrekt að halda úti öllum þessum heimasíðum. Fyrst þarf maður að blogga fyrir sjálfan sig og lýsa skoðunum sínum á öllum fréttum á Mbl.is. Síðan þarf að skrifa um ævintýri barnsins á Barnalandssíðuna og að lokum að blogga fyrir heimilishundinn. Það rétt gefst tími til að uppfæra brúðkaupssíðuna.

Það er það nýjasta í netheimum. Þar skrifa tilvonandi brúðhjón hugleiðingar sínar um stóra daginn og segja frá undirbúningnum. Og fyrst frjóvguð egg og gullfiskar eru farin að blogga er eflaust skammt að bíða þess að brúðarslör og skreyttar tertur fái málið. Ég bíð spennt.






×