Fastir pennar

Guðni og gærdagsins menn

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Það var kafli úr endurminningum Guðna Ágústssonar í Mogganum í gær þar sem meðal annars var vikið að átökunum kringum fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar sem Ólafur Ragnar Grímsson synjaði undirritunar. Þetta var skemmtilegt aflestrar. Guðni rekur þarna atburðarás sem þegar er þekkt að nokkru, nema hjá Guðna verður allt ljóslifandi og þrungið heitum og innvirðulegum tilfinningum. Maður er nánast eins og staddur í skáldsögu eftir Jón Trausta eða Torfhildi Hólm.

En Guðni er ekki gærdagsins maður í íslenskum stjórnmálum eins og þeir eru sem reyndu að draga hann með sér í fallinu. Og honum er náttúrlega í mun að draga það fram hvernig hann stóð gegn gerræðistilburðum Davíðs Oddssonar í þessu máli, og kom fyrir hann vitinu svo að Davíð neyddist til að gefast upp við tilraun sína til að koma á ný á því ástandi þegar Morgunblaðið var einrátt á íslenskum blaðamarkaði og Stöð tvö var í eigu þóknanlegra aðilja.

Sérkennilegur lýðræðisskilningur

Samkvæmt frásögn Guðna var ásteytingarsteinninn þessi: eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafði neitað að skrifa undir fjölmiðlalögin vildi Davíð leggja fram ný lög fyrir þingið með einhverjum breytingum sem hann taldi að Ólafur Ragnar myndi fallast á, enda væri hann orðinn vígmóður eftir átökin. Halldór Ásgrímsson virtist ekki hafa aðra stefnu í málinu en að halda völdum og ákvað að kanna hvernig Ólafur myndi bregðast við nýju lagafrumvarpi. Guðni Ágústsson virðist hafa verið eini maðurinn í ríkisstjórninni sem var fær um að eiga orðastað við forsetann og var sendur til að „þreifa á honum". Fékk lambakjöt á diskinn sinn og kom til baka með þau skilaboð að forsetinn myndi að sjálfsögðu ekki skrifa undir ný lög.

Þar með horfðust framsóknarmenn í augu við að málið var ónýtt en Davíð brást ókvæða við og kallaði þá veimiltítur. Sem sýnir hversu brugðið hinum orðsnjalla Davíð var því „veimil­­títa" er nú ekki orð sem kemur fyrst í huga manns andspænis svo vörpulegum manni sem Guðni er.

Jafningi eða gráðug hjú

Allt er þetta gott og blessað. En það sem óneitanlega vekur nokkra undrun þegar þessi frásögn er lesin er að ekki virðist hafa hvarflað að neinum af þessum ráðamönnum þjóðarinnar að fara einfaldlega að lögum og láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Og ekki virðast þeir heldur hafa áttað sig á því að forseti Íslands gat ekki með nokkru móti farið að undirrita lítillega endurbætt lög sama efnis án þess að fyrra málið

hefði fengið að hafa sinn lögformlega gang.

Allt þetta sýnir „afskaplega sérkennilegan" lýðræðisskilning. Það er ekki að efa að Framsóknarflokkurinn hefði bjargað miklu af sjálfsmynd sinni og reisn í huga almennings hefði hann krafist þess að farið yrði að lögum og

þjóðin fengi að kjósa um frumvarpið - og slitið stjórnarsamstarfinu ella.

Það var ógæfa framsóknarmanna að takast ekki að fjarlægja sig þessum frámunalegu aðförum gagnvart forsetanum sem starfaði í einu og öllu samkvæmt stjórnarskránni sem allt í einu var talað um sem marklaust

plagg. Það var ógæfa framsóknarmanna að koma því ekki nógsamlega á framfæri við þjóðina að þetta brölt væri ekki undan þeirra rótum runnið. Fyrir vikið birtust þeir þjóðinni sem undirlægjur. Gráðug hjú með lykil að

búrinu.

Stundum virðist manni sem það sé enn ekki runnið upp fyrir sumum fyrrverandi ráð- uh - freyjum flokksins hversu skaðlegt þetta ósjálfstæði var fyrir ímynd flokksins: þegar Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum

iðnaðarráðfreyja, gagnrýnir ríkisstjórnarflokkana - og einkum Samfylkinguna - fyrir að tala ekki einu máli (máli sjálfstæðismanna)

í málaflokkum eins og umhverfismálum virðist hún ekki átta sig á því að Samfylkingunni er það einmitt höfuðnauðsyn að koma fram sem jafningi

Sjálfstæðisflokksins en ekki tautandi hjú.

Draumurinn hjá Halldóri Ásgrímssyni og sveinum hans var eflaust sá að gera úr þessum gamla stjórnmálaarmi Sambandsins voldugan hægri flokk á borð við Venstre í Danmörku sem var deyjandi dreifbýlisflokkur þegar

Uffe Elleman Jensen hófst handa við að breyta honum í harðsnúna

frjálshyggjusveit sem höfðaði til stöndugra og sérdrægra borgarbúa. Í staðinn varð Framsókn flokkur ríkra og sérdrægra dreifbýlisbúa - kvótagreifanna. En umfram allt varð flokkurinn í augum almennings samsafn manna sem sköruðu eld að sinni köku í einkavæðingunni.

Guðni Ágústsson hefur ekki slíka ímynd - um ráðvendni hans efast enginn. Og fyrir vikið er hann ekki gærdagsins maður í íslenskum stjórnmálum heldur nútímalegur framsóknarmaður sem ekki er vert að vanmeta - maðurinn sem kom vitinu fyrir Davíð.






×