Menning

List mæld í metrum

Korpúlfsstaðir hýsa blómlegt listastarf.
Korpúlfsstaðir hýsa blómlegt listastarf.
Á Korpúlfsstöðum er rekin sjón­listamiðstöð á vegum Sam­bands íslenskra myndlistar­manna, Sam­taka hönnuða og Reykjavíkur­borgar. Í sjónlistamiðstöðinni eru nú vinnustofur hátt í fjörutíu starfandi myndlistarmanna og hönnuða. Í byggingunni er einnig rekið útibú frá Myndlistarskóla­num í Reykjavík þar sem börn og unglingar hafa sótt námskeið. Félagsstarf aldraðra í Grafarvogi fer fram á Korp­úlfsstöðum að ógleymdum golfurun­um sem þeyt­ast um velli hlýrri mánuði ársins. Því má með sanni segja að þetta gamla kúabú hafi öðlast nýtt og menningarlegt hlut­verk á undan­förn­um árum.

Senn dregur til tíðinda á Korpúlfsstöðum þar sem borgar­stjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, opnar næstkomandi laugardag í stóra sýningarsal bygg­­­ing­­ar­innar samsýningu ríflega helm­­ings þeirra listamanna sem á Korpúlfsstöðum starfa.

Titill sýningarinnar er Meter þar sem verkin, sem unnin eru í margvíslega miðla, eiga það öll sameiginlegt að vera unnin út frá mælieiningunni metra. Því mælast verkin öll einn metri á alla kanta, hvort sem þau eru í tvívídd eða þrívídd. Sýningin stendur aðeins yfir um næstkomandi helgi og verður opin frá 13 til 17 laugardag og sunnudag.

Vinnustofur þeirra listamanna og hönnuða sem starfa á Korp­úlfsstöðum verða einnig opnar almenningi á laugardag og kennir þar ýmissa grasa. Á Korpúlfsstöðum er unnið að listsköpun út frá ólíkum forsendum og má því sjá málverk, teikningar, grafík, grafíska hönnun, leirlist, textíl, hreyfimyndagerð, landslagsarkitektúr, leik­mynda­hönnun, glerlist og högg­myndir á vinnustofunum. Það er því til mikils að vinna fyrir áhugafólk um listir enda hér á ferð tækifæri til þess að fylgjast með vinnuferli listafólks.

Sjónlistirnar fá þó ekki einar að njóta sín því ritlistin lætur líka til sín taka. Rithöfundar munu lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum og hægt verður að kaupa sér kaffiveitingar í portinu í suðurhluta hússins. - vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×