Erlent

Verðlækkanir hérlendis ólíklegar

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hríðfallið undanfarna daga og hefur ekki verið lægra í hálft annað ár. Talsmenn íslensku olíufélaganna segja ólíklegt að eldsneytisverð lækki hér á landi á næstunni vegna óhagstæðrar gengisþróunar.

Óhætt er að segja að titringur hafi ríkt í kauphöllum heimsins undanfarna daga vegna verðbreytinganna á olíu en verðið á fatinu hefur að jafnaði lækkað um það bil fimm Bandaríkjadali. Í gær lækkaði fatið af Norðursjávarolíu um tvo dali og áttatíu og fimm sent, úr tæpum fimmtíu og átta dölum niður í rétt rúma 55 dali í kauphöllinni í Lundúnum. Vestanhafs lækkaði hráolíufatið svo um tvo dali og sjötíu sent.

Mikil hlýindi í Evrópu og sérstaklega í Bandaríkjunum ráða mestu um þessa verðþróun enda eru Bandaríkjamenn mestu olíuneytendur veraldar. Spurn eftir olíu til húshitunar þar er um þriðjungi minni en í meðalári. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað mikið undanfarna mánuði en í júlí á síðasta ári fór verðið upp í 78 dali fatið. OPEC, samtök olíuframleiðsluríkja íhuga nú að draga úr framleiðslu sinni til að mjaka verðinu upp á við á ný.

Stjórnendur íslensku olíufélaganna fylgjast grannt með þróuninni á mörkuðum erlendis en engar ákvarðanir hafa þó verið teknar um verðbreytingar. Magnús Ásgeirsson, hjá Olíufélaginu, segir að miðað við hversu mikið krónan hafi lækkað gagnvart bandaríkjadal að undanförnu sé hins vegar ólíklegt að eldsneytisverð lækki hér á landi á næstunni, gengisbreytingarnar hafi með öðrum orðum étið upp lækkanirnar á heimsmarkaði.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×