Erlent

Negroponte aðstoðarutanríkisráðherra

George Bush Bandaríkjaforseti gagnrýndi í dag hvernig staðið var að aftöku Saddams Hussein en sagði þó einræðisherrann fyrrverandi hafa fengið réttlátan dóm. John Negroponte, yfirmaður leyniþjónustustofnana ríkisins, var í dag tilnefndur í embætti aðstoðarutanríkisráðherra.

Tæp vika er síðan Saddam Hussein fékk að hanga í gálganum og viðbrögð heimsins hafa ekki látið á sér standa. Í dag kallaði Hosni Mubarak Egyptalandsforseti aftökuna villimannslega og sagði að með henni væri búið að gera Saddam að píslarvotti. Í gær tjáði George Bush, forseti Bandaríkjanna sig í fyrsta sinn um aftökuna og framkvæmd hennar á fundi sínum með Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Washington.

Þar sagðist hann hafa kosið að böðlar Saddams hefðu komið fram við hann af meiri virðingu en bætti því svo við að honum hefði verið sýnt réttlæti sem hann hefði sjálfur neitað þúsundum manna um. Hann vænti þess að ítarleg rannsókn færi fram á aftökunni.

Á fundi sínum ræddu leiðtogarnir ýmis mikilvæg mál, meðal annars hlýnun jarðar, alþjóðaviðskipti og auðvitað ástandið í Mið-Austurlöndum. Þá greindi Bush frá því að hann myndi í næstu viku kynna stefnubreytingar sínar í stríðsrekstrinum í Írak. Talið er að hann muni fjölga í herliðinu sem þar er fyrir og gera mannabreytingar á sviðum utanríkis- og varnarmála. Þær breytingar eru raunar þegar hafnar því í dag tilnefndi Bush John Negroponte sem aðstoðarutanríkisráðherra en hann gegndi áður starfi yfirmanns leyniþjónustustofnana ríkisins og þar áður var hann sendiherra í Írak. Mike McConnell kemur í hans stað hjá leyniþjónustunni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×