Erlent

Demókratar andvígir fjölgun hermanna

Demókratar, sem nú eru í meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings í fyrsta sinn í tólf ár, leggjast eindregið gegn því að fjölgað verði í herliði Bandaríkjanna í Írak eins og búist er við að George Bush forseti leggi til í næstu viku.

Reiknað er með að í tillögum Bush verði stungið upp á að hermönnunum verði fjölgað um 10.000-20.000 og verkefni þeirra verði að kveða niður Mahdi-herdeildir Muqtada al-Sadr, sem sagðar eru bera ábyrgð á stórum hluta ofbeldisins í landinu. Í bréfi sem Nancy Pelosi og Harry Reid, leiðtogar demókrata í fulltrúa- og öldungadeildinni, sendu Bush í gær, á fyrsta heila starfsdegi þingsins undir stjórn demókrata, láta þau aftur á móti þær áhyggjur sínar í ljós að slík fjölgun geti reynst Bandaríkjaher ofviða án þess að hún skili nokkrum ávinningi á móti. Í staðinn leggja þau til að herinn einbeitti sér að þjálfun nýrra íraskra hermanna og dragi sig svo smátt og smátt frá landinu.

Alger uppstokkun virðist í gangi innan bandaríska stjórnkerfisins í utanríkis- og varnarmálum. Í gær var John Negroponte skipaður í embætti aðstoðarutanríkisráðherra. Negroponte gegndi áður starfi yfirmanns leyniþjónustustofnana landsins en við stöðu hans þar tekur Mike McConnell. Síðar um daginn greindi svo Robert Gates landvarnaráðherra frá því að William Fallon tæki við sem yfirmaður herja Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan af John Abizaid og David Petraeus tæki við herstjórninni í Írak af George Casey. Þá er reiknað með að á næstunni muni Zalmay Khalilzad, sendiherra Bandaríkjanna í Írak, muni taka sendiherrastöðunni hjá Sameinuðu þjóðunum af John Bolton eftir að fullreynt varð að þingið myndi staðfesta skipun hans.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×