Erlent

David Bowie sextugur í dag

MYND/Vísir

Hann kom til jarðar sem Ziggy Stardust, fór í ýmis gervi eftir það og söng meðal annars um Starman og Major Tom. Söngferillinn spannar rúma fjóra áratugi. Hann heitir David Bowie og er sextugur í dag.

Bowie fæddist í suður hluta Lundúna áttunda janúar 1947. Hann var skírður David Robert Jones. Það var svo tuttugu árum síðar sem hann tók upp eftirnafnið Bowie og gaf út sína fyrstu plötu sem hét einfaldlega David Bowie. Það var þó ekki fyrr en árið 1969 sem hann vakti athygli með plötu sinni Space Oddity og tengdi þar rokktónlist við geimferðir og vísindaskáldskap og fór það vel ofan í hlustendur sem voru um leið hugfangnir af tungllendingu Bandaríkjamanna sama ár. Það var svo þremur árum síðar sem sviðspersónan Ziggy Stardust kom fram á sjónarsviðið.

Bowie hefur síðan þá unnið með fjölmörgum ólíkum tónlistarmönnum og sent frá sér lög á borð við Heroes, Let´s Dance, Modern Love og China Girl. Það var svo árið 1996 sem Bowie kom til Íslands og hélt vel sótta tónleika í Laugardalshöllinni.

Hin síðari ár hefur Bowie ekki tekist að ná sömu vinsældum og snemma á ferlinum en hann heldur tónleikaferðalögum áfram og semur enn. Síðasta plata hans kom út 2003. Auðæfi Bowies eru metinn á jafnvirði tæplega sjötíu milljarða íslenskra króna og hann því einn ríkasti skemmtikraftur Bretlandseyja. Bowie sagði þó í viðtali fyrir tæpum tveimur árum að með aldrinum væri það ekki fé eða frami sem skitpi mestu máli. Mestu skipti að umhyggja fyrir ættingjum, vinum og náunganum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×