Erlent

3,7 milljónir flóttamanna flúið heimili sín í Írak

Margir hafa flúið skálmöldina í Írak.
Margir hafa flúið skálmöldina í Írak. MYND/AP

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sagði í dag að allt að 3,7 milljónir manna hefðu flúið heimili sín í Írak vegna ástandsins sem þar ríkir. Talið er að um 50 þúsund bætist í hópinn á hverjum mánuði. Konur hafa einnig neyðst út í vændi og frásagnir af þrælkunarvinnu barna verða háværari.

Stofnunin hefur nú sett fram beiðni um 60 milljón dollara, eða um 4,2 milljarða íslenskra króna, til þess að geta spornað við þessari þróun og bætt aðstöðu þeirra sem þegar hafa flúið heimili sín. Þar sem Írakar eru ekki nema um 26 milljónir talsins eru þessir fólksflutningar gríðarmiklir. Það eina sem var á svipuðum mælikvarða í Mið-Austurlöndum var þegar Palestínumenn þurftu að flytja þegar Ísraelsríki var stofnað árið 1948.

Sérstök áhersla verður lögð á að hjálpa þeim flóttamönnum sem nú hafast við í flóttamannabúðum í Jórdaníu en talið er að um 200.000 manns hafist þar við um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×